131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[10:44]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta þingmál. Í rauninni erum við að takast á um nokkuð stórt mál, grundvallarmál, hvernig við skipuleggjum samfélag okkar og hvort við gerum það með það að leiðarljósi að þjóna duttlungum og stundarhagsmunum okkar í einu og öllu eða hvort við viljum hafa fjölskylduna og fjölskyldulíf í fyrirrúmi, hvort við viljum hafa einhverjar hátíðir sem fjölskyldan á sameiginlega. Þannig hefur það verið um jól og páska og þá höfum við vikið stundarhagsmunum til hliðar fyrir þessu meginsjónarmiði. Eins og ég gat um áðan er það að sjálfsögðu svo að það er mjög þægilegt að geta farið út í verslun hvenær sem er, á kvöldin þegar eitthvað hefur gleymst eða þess vegna um hátíðar. Auðvitað er það þægilegt.

Hin hliðin á málinu er hagsmunir starfsfólksins. Það er að biðja okkur um það og samtök þeirra að við gerum þetta ekki vegna þess að það er þannig að þótt takist að manna verslanir á löngum vöktum mun þetta leiða til þess að fólk verður þvingað til starfa á þessum tímum. Þetta eru staðreyndir sem samtök verslunarmanna hafa bent okkur á. Þar fyrir utan erum við að ala upp í okkur ákveðna vesalmennsku með þessu, fyrirhyggjuleysi. Verið er að ýta undir það að fólk geti ekki skipulagt sig þannig að það kaupi það sem það þarf til heimilis eða til neyslu á tímum sem koma sér vel fyrir verslunarfólkið einnig.

Þetta er þess vegna ekkert smámál. Þetta er stórmál en verst af öllu finnst mér að Alþingi ætli að virða að vettugi óskir sem fram hafa komið frá samtökum verslunarmanna. Það finnst mér ekki góður hlutur.