131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[10:58]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel mig alveg skilja forsendur þess að farið er fram með beiðni um að rýmka möguleika á sölu matvæla undir formerkjum jafnræðissjónarmiða um allt þannig að hægt sé að versla með matvöru um allt land á þeim helgidögum sem hér eru taldir til, á föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag. Að vísu hefur komið fram að það var eingöngu óskað eftir því af verslunareigendum að hvítasunnudeginum yrði bætt við þá daga sem heimilað er að selja matvörur eða hafa aðgengi að matvörum á fleiri stöðum en nú er.

Ég vil í því sambandi segja að ég held að ástæða sé til að staldra aðeins við og horfa til þess á hvaða braut við erum. Hér er sérstaklega vísað til ferðamanna en auðvitað notfæra sér það allir landsmenn að hafa aðgengi að verslunum og þjónustu á hvaða tíma og hvaða degi sem er. Þetta er ekki eingöngu fyrir ferðamenn en ferðamenn eru oftast notaðir sem ástæða þess að rýmka þurfi afgreiðslutíma svo þeir komist til að kaupa sér matvöru.

Ef við lítum í kringum okkur sjáum við að það er ekkert sjálfgefið að við sem ferðamenn í nálægum löndum komumst í búðir á þessum helgustu dögum kristinnar kirkju, að það sé opið á þessum dögum. Sem ferðamaður kynnir maður sér hvort það er opið eða lokað á föstudaginn langa og ef maður veit að maður kemst ekki í að kaupa sér matvæli gerir maður ráðstafanir fyrir fram. Eins er með okkur Íslendinga, þegar lokað er á föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag gerum við ráðstafanir. Þannig er bara lífið og ég tel fulla ástæðu til að við hinkrum aðeins og horfum á það hvernig afgreiðslutími verslana er orðinn í dag og aðgengi að matvöruverslunum. Þessi langi afgreiðslutími kemur auðvitað út í verðlagið, hann getur ekki gert annað. Ef við horfum auk þess til starfsmannanna er vinnuskyldan orðin mikil og binding fyrir það starfsfólk sem vinnur við þessi störf.

Ég hef heyrt í mjög mörgum sem telja að núverandi afgreiðslutími, að það sé hægt að fara í matvöruverslanir á laugardögum og sunnudögum, sé í raun og veru alveg óþarfi. Það hafi ekki verið neinir erfiðleikar að skipuleggja sig þannig að maður verslaði fyrir helgina sem venjulegur Íslendingur, vitaskuld sé þetta þægilegt en í rauninni ástæðulaust eins og þetta er í dag, til þæginda en engin brýn nauðsyn. Þetta bitnar á mjög mörgum fjölskyldum og það er mikið álag á þá sem sinna þessum störfum. Ég held að við ættum að feta okkur hægt í meiri þjónustu en nú er. Undantekningarnar eru margar. Eins og lögin eru í dag er mjög víða hægt að fá þjónustu um helgar og þróunin hvað varðar þjónustu bensínstöðva hefur verið í þá átt að hafa til sölu nauðsynjavöru eins og mjólk og brauð og það allra nauðsynlegasta. Víða um land er hægt að kaupa þessar brýnustu nauðsynjavörur þannig að ég tel að forsendurnar sem menn gefa sér, sérstaklega hvað varðar föstudaginn langa og páskadag, þörfin á því að hafa opið á þessum dögum sé ofmetin. Það hefur líka komið fram að það var eingöngu verið að óska eftir hvítasunnudegi sem er almenn ferðahelgi hjá Íslendingum. Samtök verslunarmanna hafa mótmælt og ég tel að við þurfum að horfa mjög til þeirra mótmæla, taka tillit til þeirra og eins sé ástæðulaust að við séum eitthvað viðkvæm fyrir því að halda helgustu dögum kristinnar kirkju til haga sem frídögum fyrir fjölskylduna og vera ekki svo viðkvæm fyrir því að einhvers staðar úti í heimi sé opið á þessum dögum því að mjög víða er líka lokað. Ég tel að sú niðurstaða sem þingmenn allsherjarnefndar hafa komist að sé ekki rétt og að hér sé fulllangt gengið.