131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:06]

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi ferðaþjónustuna og það að við séum að reyna að lengja þann tíma sem ferðamenn koma til landsins, ekki bara yfir blásumarið heldur fram á vor og haust, er ekki síður mikil áhersla lögð á það að fá ferðamenn hingað um hávetur til að kynnast íslenskri náttúru og stórhríð. Eigum við þá að hafa opið á aðfangadagskvöld, jóladag? Hvar eru mörkin? Er ekkert orðið heilagt?

Hvað varðar vísan til annarra þjóða og að alls staðar annars staðar sé opið, eða víðast annars staðar, þá er það ekki rétt. Mér fyndist persónulega ekkert gera til þó að við hefðum ákveðna sérstöðu og héldum í okkar allra heilögustu helgidaga og virtum það að starfsfólk þessara verslana hefði frí á þessum dögum. Ég skil það sjónarmið sem verið er að leggja fram, að gæta skuli jafnræðis milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, en þá vil ég segja: Höfum við ekki gengið of langt hvað varðar möguleika á þjónustu í verslun um helgar hér á landi?