131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:23]

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel ekki rétt að beina hinni almennu matvöruverslun inn á bensínstöðvarnar en það er sú þróun sem hefur verið. Bensínstöðvar, sérstaklega höfuðborgarsvæðinu, eru margar hverjar orðnar eins og litlar matvöruverslanir.

Ég sagði þetta út frá þeirri skoðun sem hér hefur komið fram að við þurfum að sjá til þess að ferðamenn sem sækja okkur heim hafi möguleika á að fá nauðsynjavöru og matvöru á helgidögum. Ég segi að þeir geta það, þeir eru ekki útilokaðir frá því. Þeir geta keypt nauðsynjavörur bæði úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu á þessum dögum. Ég var eingöngu að benda á það að þeir munu ekki svelta á þessum dögum á höfuðborgarsvæðinu, heldur hafa þeir aðgengi að vörunum þótt það sé á bensínstöðvunum sem eru orðnar eins og litlar matvöruverslanir. Hvort það er svo eðlileg þróun að bensínstöðvarnar séu að verða eins og litlar matvöruverslanir er síðan annar kapítuli. En það er enginn ferðamaður sem sveltur á þessum dögum því að hann kemst í allra brýnustu nauðsynjar.