131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:25]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson segir að við skulum halda þessari umræðu á þeim stað sem snertir kjarna málsins. Ég er hjartanlega sammála honum í því.

Kjarni málsins er auðvitað sá að hér er um þrjá helgidaga að ræða, ekki er um fleiri að ræða en þessa þrjá helgidaga. Hér er um að ræða ákveðna jafnræðisreglu, það er rétt sem hv. þingmaður segir, en hitt er rangt sem hann segir, að það sé tilviljun að málin hafi þróast þannig að bensínstöðvar hafi farið að bjóða upp á matvöru. Það var engin tilviljun. Það gerðist með lagabreytingu frá Alþingi Íslendinga 1997 þegar leitt var í lög að á þessum dögum fengi gististarfsemi og tengd þjónusta, starfsemi lyfjabúða, bensínstöðva, bifreiðastöðva, verslana á flugvöllum og fríhafnarsvæðum, blómaverslana, söluturna og myndbandaleiga að vera með þjónustu í boði. Það varð til þess að bensínstöðvar sáu sér leik á borði, af því að matvöruverslanir voru ekki með opið á þessum dögum, að fara að bjóða upp á matvöru. Þess vegna, út af lagabreytingunni frá 1997, hefur þessi þróun orðið. Þetta er alls ekki tilviljun.

Kjarni málsins út frá sjónarhóli Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lýtur hins vegar að réttindum verslunarfólks. Verslunareigendur voru með þrýsting 1997 um að þetta yrði rýmkað. Alþingi lét undan þeim þrýstingi og það varð rýmkun. Samtök verslunar og þjónustu halda áfram að þrýsta á um rýmkun og aftur ætlar Alþingi Íslendinga að verða við beiðni Samtaka verslunar og þjónustu og rýmka afgreiðslutímann. Það er þetta sem við erum að reyna að segja, sú rýmkun sem Alþingi Íslendinga leggur hér til eina ferðina enn gengur á rétt verslunarfólks. Réttur verslunarfólks hefur verið sá að það á ákveðna lögvarða frídaga sem verða með þessum breytingum teknir af því. Þetta er kjarni málsins í hugum þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ekki fór mikil umræða fram um þetta við 1. umr. og því er eðlilegt að þingmenn hafi þörf fyrir að tjá hug sinn um málið núna þegar frumvarpið er komið úr nefnd. Ekki er hægt að skilja svo við umræðuna að fara ekki aðeins yfir umsögn Verslunarmannafélags Reykjavíkur sem er greinilega ekki á sama máli og hv. þm. Birgir Ármannsson sem gerir ráð fyrir að hér sé bara eitthvert atriði sem verslunareigendur og verslunarfólk geti samið um. Það er greinilegt að verslunarfólk telur þrýstinginn frá eigendum verslananna það mikinn að þetta verði aldrei neitt samningsatriði. Ef sú krafa er frá verslunareigandanum að fólkið vinni vinnur það. Verslunarfólk óskar bara eftir því að Alþingi Íslendinga tryggi þessa lögboðnu þrjá frídaga sem það á í dag.

Í umsögn Verslunarmannafélags Reykjavíkur er þess meira að segja getið að farið sé lengra í frumvarpinu en óskir vinnuveitenda gangi út á varðandi þetta efni. Þar hafi óskir verslunareigenda fyrst og fremst lotið að hvítasunnudegi en hér sé bætt inn páskadegi og föstudeginum langa, ef ég man rétt. Ég verð að viðurkenna að þó að ég sé í allsherjarnefnd var ég ekki viðstödd umfjöllun málsins í nefndinni heldur varaþingmaður minn, Atli Gíslason, sem fram hefur komið í umræðunni að er ekki samþykkur áliti þessu frekar en aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Ég vil fá að vitna í umsögn Verslunarmannafélags Reykjavíkur þar sem segir, með leyfi forseta:

„Athugasemd er því gerð við þá tillögu að rýmka opnunartíma á helgidögum umfram óskir hagsmunaaðila verslana og fækka þar með þeim dögum þar sem launþegum í verslunarstörfum er tryggður frídagur samkvæmt lögum.

Við þetta má bæta að afgreiðslutími verslana hérlendis er nú þegar orðinn með þeim hætti að vart er á bætandi. Verslunarkjarnar og stórmarkaðir eru opnir 7 daga vikunnar, sólarhringsopnun matvöruverslana er að ryðja sér til rúms, auk þess sem núgildandi ákvæði um starfsemi á helgidögum er nýtt til fullnustu. Í dag er opnunartími verslana einna frjálsastur hér á landi af löndum hins vestræna heims og verður því ekki séð að sérstök þörf sé fyrir enn frekari rýmkun á þessu sviði.“

Hér koma verslunarmenn með öndvert sjónarmið við það sem hv. þm. Birgir Ármannsson talaði fyrir í ræðu sinni áðan þar sem hann vildi meina að við værum aftarlega á merinni hvað þetta varðar. Verslunarmenn eru á öndverðum meiði og segja að við séum með frjálsasta opnunartíma á Vesturlöndum. Nú standa þar orð gegn orði og ekki skal ég fullyrða hvað rétt er í þeim efnum. Hitt er alveg ljóst að verslunarmenn eru andvígir breytingunni út af þeim rökum sem þeir hafa tilgreint hér, þeir óttast um þá lögboðnu frídaga sem þeir eiga í dag.

Varðandi jafnræðisregluna, þ.e. eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur vikið að, að ósanngjarnt sé að heimila ákveðnum verslunareigendum að versla með matvörur á þeim hátíðisdögum sem um getur en ekki öðrum, þá vil ég bara segja að við erum ekki að tryggja jafnræði með þessari breytingu því að við erum að setja hér takmörk við ákveðinn fermetrafjölda þannig að verslunarrými sem má að vera opið á þessum dögum má ekki vera stærra en 600 fermetrar. Nágrannalönd okkar hafa farið þessa leið og þar standa eilífar deilur um þennan fermetrafjölda. Þar búa eigendur stórverslana til skilrúm og loka af það rými verslunarinnar sem nemur 600 fermetrum, eða hvaða tala sem í gildi er þar, sem þýðir að þeir fara í kringum lögin, þeir fara á svig við lögin og opna ákveðin svæði í búðinni. Það eru eilíf þrætumál og eilífar deilur í nágrannalöndum okkar út af þeim reglum sem löggjöf af þessu tagi leiðir af sér. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs viljum standa vörð um þessa lögboðnu frídaga verslunarmanna og teljum vera nóg gengið á rétt þeirra miðað við þá löggjöf sem er. Við erum ekki að fara fram á að hér verði eitthvað bakkað með því að banna opnun á öllum helgidögum, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson ýjaði að. Við viljum bara halda þessum þremur frídögum á þeim nótum sem þeir eru núna þannig að verslunarmenn geti tryggt að þeir eigi þann rétt samkvæmt lögum og verslunareigendur geti ekki tekið þann rétt af þeim.