131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[11:38]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, hv. þm. Sigurður Kári er furðu lostinn og hann verður þá bara að vera það því að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa alveg getað búið við löggjöfina frá 1997. Ég var ekki í þingsal þá og þurfti þess vegna ekki að greiða atkvæði, hvorki með né á móti þeirri breytingu sem þá fór í gegn. Auðvitað verða þingmenn og þjóðin öll að búa við þá löggjöf sem hér er samþykkt og við höfum búið við þessa löggjöf í ákveðinn tíma, þ.e. þá breytingu sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Það hefur gengið ágætlega. Verslunareigendur hafa séð sér ákveðinn leik á borði, þeir hafa þróað verslunarrekstur sinn, bæði olíufélögin og aðrir verslunareigendur hafa þróað verslunarrekstur sinn út frá þeirri lagabreytingu sem þá var gerð. Það sama kemur til með að verða uppi á teningnum núna við þessa breytingu. Menn koma til með að þróa áfram verslunarrekstur sinn út frá þeirri breytingu og setja eins og ég sagði skilrúm í verslanir sínar til að standa við 600 fermetra hámarkið. Þá komum við að öðrum vandamálum sem eru því samfara að fara í slíkar víkkanir og draga einhvers staðar skörp skil. Okkur hefur ekki tekist að draga þau skörpu skil hingað til og kemur ekki til með að takast það heldur með þeirri breytingu sem hér er verið að ræða um. Við sitjum áfram uppi með yfirvofandi enn frekari þrýsting frá verslunareigendum um enn frekari rýmkun. Í málflutningi Vinstri grænna í þessari umræðu koma fram efasemdir um þá leið sem hér er farin vegna þess að leiðin sem farin var 1997 skilaði ekki því sem til var ætlast.