131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef miklar efasemdir um það mál sem hér er til umræðu og breytir það engu þó landsfundur Samfylkingarinnar hafi ályktað í þessa veru. Ég sé ekki að þetta breyti nokkru um ráðherraræði eins og þingmaðurinn nefndi. Ef markmiðið er að skerpa þrískiptingu ríkisvaldsins sem ég er mikill talsmaður fyrir og hef talað fyrir gegnum árin þá eru aðrar leiðir miklu heppilegri til þess. Ég nefni t.d. að skerpa lög um ráðherraábyrgð sem eru afar veik. Ráðherrarnir geta komist upp með hvað sem er án þess að vera brotlegir gegn lögum um ráðherraábyrgð. Ég nefni það að koma á rannsóknarnefndum þingsins sem eru miklu vænlegri leiðir. Hvað þýðir þetta í raun og sanni? Hér er verið að fjölga um tólf þingmenn þannig að ef þetta frumvarp yrði að lögum í dag þá ættu sæti hér núna 75 manns. Þeir kæmust nú varla fyrir í þessum þingsal. Þetta mundi styrkja stjórnarliðið fyrst og fremst en ekki stjórnarandstöðuna. Þetta mundi sennilega veikja stjórnarandstöðuna og styrkja stjórnarliðið þar sem í raðir þess bættust tólf þingmenn. Ég spyr hv. þingmann: Hefur hún hugað að því hvað þetta kostar? Ég geri ráð fyrir að það kosti ekki undir 100 milljónum að bæta við tólf þingmönnum. Síðan þarf að stækka þennan ágæta þingsal eða breyta um húsrými. Ég held að mjög margt sé við þetta mál að athuga.

Við ættum frekar að nýta þá peninga sem í þetta færu, ef þeir væru á annað borð til, til að styrkja stöðu þingsins og þingnefnda, koma á hagdeild í þinginu eins og ég hef margsinnis kallað eftir. En ég held að þetta sé ekki leiðin til þess að breyta neinu um ráðherraræðið eins og þingmaðurinn er að kalla eftir.

Ég spyr hv. þingmann: Hvað kostar að gera þessa breytingar? Er hún ekki sammála mér um að margar heppilegri leiðir en sú sem hér er lögð til finnist til að vekja ráðherraræði?