131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:19]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú rökin harla léttvæg. Því er t.d. teflt fram að ráðherra muni ekki greiða atkvæði í þinginu. Þeir munu ráða ferðinni eftir sem áður. Hér má engu breyta og ekkert gera nema spyrja ráðherrana. Hér má ekki samþykkja þingmál eða gera nokkurn skapaðan hlut án þess að spyrja ráðherrana áður. Það má ekki breyta stjórnarfrumvarpi nema samþykki ráðherranna liggi fyrir. Það mun því engu breyta þó atkvæðisrétturinn sé tekinn af ráðherrunum. Það eru bara staðreynd máls.

Hv. þingmaður hefur ekki teflt fram neinum gildum rökum um að þetta dragi úr ráðherraræði. Þvert á móti finnst mér að ef við höfum á annað borð fjármagn til þess að gera þetta þá getum við farið allt aðrar leiðir til þess að draga úr ráðherraræðinu og styrkja þingræði sem þarf virkilega að gera og skerpa á þrískiptingu valdsins. En það verður ekki gert með þessari leið. Ef hv. þingmaður væri t.d. tilbúin til þess að ljá máls á því að fækka þingmönnum að sama skapi þá mætti kannski skoða þessa leið. En hún mun ekki ná því markmiði að styrkja þingræðið. Það er alveg ljóst.

Ég veit að Framsóknarflokkurinn hefur lent í vandræðum sem lítill þingflokkur þar sem helmingurinn af þingmönnum eru ráðherrar. Þeir hafa lent í vandræðum í þingnefndum við að geta fullmannað þingnefndir og sinnt með eðlilegum hætti þingskyldum sínum þegar svo er uppi. En það eru ekki rök fyrir því að fara þessa leið.

Ef þetta væri núna í gildi þá væru 46 stjórnarliðar í salnum og 29 stjórnarandstæðingar. Það er bara ekki eðlilegt að fara þessa leið. Ég spái því að fleiri en ég séu þeirrar skoðunar að við eigum að fara allt aðra leið til þess að styrkja stöðu þingsins og þingnefnda eins og er mjög mikilvægt að gera og hefur verið kallað eftir því hér í tvo til þrjá áratugi án þess að nokkuð hafi verið gert. Önnur mál eru því miklu brýnni til að styrkja þingræðið en það sem hv. þingmaður talar fyrir.