131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:25]

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég nefndi það í ræðu minni að ég var einmitt spurð að þessu hér á sínum tíma sem ráðherra, af hverju ég segði bara ekki af mér og tæki inn varamann af því þá væri ég að uppfylla það sem felst í frumvarpinu. En eins og ég sagði þá er staðan núna sú að það er hægt að segja af sér þingmennsku og láta varamann koma inn í staðinn. En það er mjög ólíklegt að ráðherra geri slíkt að öllu óbreyttu því ef hann missir ráðherraembætti sitt þá á hann ekki afturkvæmt aftur í þingmennskuna fyrr en að afloknum kosningum, þ.e. ef hann nær kjöri. Það er því ekki góður kostur í dag. Ef ég hefði gert þetta þá stæði ég ekki hér í dag af því þá hefði þurft að kjósa fyrst og maður hefði þurft að ná endurkjöri. (Gripið fram í.) Því var eiginlega fráleitt að gera þetta. Út á það gengur breytingin líka að ráðherrarnir taki inn varamenn. Ef þeir missa svo ráðherradóm sinn af einhverjum orsökum þá gætu þeir komið inn í þingið aftur. Í dag er fyrirkomulagið svo óheppilegt.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson var að skjóta á þá er hér stendur varðandi það að hún hefði hagað sér á einhvern hátt til að falla inn í ráðherrahópinn o.s.frv. Ég vil sérstaklega koma því á framfæri hér út af þessu að ég lagði mig mjög mikið fram sem ráðherra við að kynna ekki mál opinberlega fyrr en búið var að fara með þau í gegnum stjórnarflokkana. En það hefur gerst trekk ofan í trekk, því miður, að ráðherrar hafi kynnt mál opinberlega áður en þau koma til þingflokka stjórnarflokkana. Það gerðist ekki þegar sú er hér stendur var ráðherra. Það gerðist einu sinni og það var ekki að mínum völdum. Það var af völdum annarra. Ég tek þessa gagnrýni því ekki til mín.