131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:30]

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þótt það hafi ekki oft komið upp að þær aðstæður hafi skapast, að ráðherrar fari úr ráðherraembætti, þá kemur það upp eins og hér kom fram og maður er sjálfur lifandi dæmi um. Maður veit aldrei hvernig svona þróast. Að mínu mati er ekki hægt að gera þær kröfur til sitjandi ráðherra, miðað við kerfið eins og það er í dag, að þeir afsali sér þingmennsku upp á von og óvon. Þótt það sé ekki mjög algengt þá gerist það öðru hverju. Þetta starf, að vera þingmaður, fara í gegnum kosningar og vera kosinn sem þingmaður og eftir atvikum að verða ráðherra, er auðvitað mjög áhættusamt starf og óöruggt. Það er kosið á fjögurra ára fresti og maður hefur enga tryggingu fyrir því að halda starfinu. Næg er óvissan samt þótt maður fari nú ekki að kalla meiri óvissu yfir ráðherrana sem eru sitjandi, að þeir afsali sér þingmennsku upp á von og óvon.

Ég deili hins vegar þeirri skoðun hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar að ráðherraræðið hafi vaxið, það er a.m.k. tilfinning mín á þeim tíma sem ég hef verið á þingi, í um 10 ár. Þó hefur ráðherraræðið líklega verið ansi sterkt í gamla daga þegar fáir ráðherrar réðu sjálfsagt öllu og þingið var líklega frekar veikt, þótt maður hafi ekki upplifað þann tíma.

Maður hefur á tilfinningunni að ráðherraræðið sé að vaxa en það getur líka verið vegna þess að sömu stjórnarflokkar hafa verið lengi við völd. Þá kann að vera eðlilegt að tilhneigingin sé sú að ráðherrarnir taki meira til sín út af því. Ráðherrarnir sjálfir segja það jafnvel, maður hefur heyrt það úr herbúðum þeirra, að þeir þurfi ekki að hafa samráð við þingmenn af því þeir eru hluti af framkvæmdarvaldinu, sem er mjög skrýtið, að vilja stundum vera í þinginu með þau réttindi sem þar skapast og stundum ekki.