131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:32]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að blanda mér í umræður um áhættu sem einstaklingar taka í ráðherrastarfi með því að afsala sér þingmennsku, enda fjallar málið ekki um einstaklinga heldur um kerfið sem við viljum smíða okkur. Ég held að þegar litið er á meginmarkmiðin sem sett eru fram sem rökstuðningur með þessu frumvarpi þá sé um þau all góð þverpólitísk samstaða, þ.e. að efla þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu og gera aðskilnað löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins greinilegri. Síðan hefur verið talað um að draga úr ráðherraræði o.s.frv. Umræðan er ekki ný af nálinni og hefur farið fram með hléum í langan tíma.

Ég held að við séum sammála um meginmarkmiðin sem þarna eru sett fram. Þá er spurningin: Er þetta rétta leiðin til að ná þessum markmiðum?

Ég ætla að staðnæmast við þrjú atriði. Í fyrsta lagi tel ég mikilvægt að styrkja þingið, ekki með það fyrir augum að styrkja það gagnvart framkvæmdarvaldinu sérstaklega heldur sem sjálfstæðan aðila. Þetta hefur gerst í seinni tíð jafnt og þétt. Nefndasvið þingsins hefur eflst stórlega á undanförnum árum og ég held að fara eigi lengra út á þá braut. Menn deila svolítið um það hvort beina eigi stuðningi til stjórnmálaflokkanna, þingflokkanna, í ríkari mæli en verið hefur í stað þess að efla nefndasviðið almennt. Ég er þeirrar skoðunar að efla eigi nefndasviðið, leggja höfuðáherslu á það. Þetta er ein leiðin til að efla þingið, efla sérfræðiþjónustu sem þingmönnum og þingflokkum er veitt.

Þá kemur að spurningunni um að styrkja stjórnarandstöðuna. Ég tel það mjög mikilvægt. Þegar allt kemur til alls þá er það stjórnarandstaðan sem veitir framkvæmdarvaldinu mest aðhald, þótt ég geri mér grein fyrir því að sú hugsun sem hér er boðuð byggir á því að þingið geri þetta í ríkari mæli, bæði þeir sem styðja stjórnina og stjórnarandstaðan. Ég held að þetta sé engu að síður raunsæi, að líta svo á að stjórnarandstaðan verði meginuppistaðan í aðhaldinu gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Þá vaknar spurningin um innri afstöðu manna. Ég held að það sé ekki alveg rétta nálgunin að tala um ráðherraræði. Ég held að við ættum líka að tala um undirgefni, undirgefni þingmanna og þings gagnvart framkvæmdarvaldinu og pólitískum verkstjórum sem sitja á ráðherrastólum. Það er nokkuð sem við eigum hvert og eitt að taka til okkar. Það reynir meira á þetta hjá þingmönnum í ríkisstjórn vegna þess að þeim er stöðugt stillt upp við vegg, að þeir þurfi að styðja sitt fólk við að koma málum fram. Stjórnarandstaðan er í annarri stöðu að þessu leyti. Ég tel að ríkisstjórnarflokkar á undanförnum árum hafi iðulega gengið of langt í að berja menn til hlýðni. Í breska þinginu er talað um „whip“, svipuna, og þann sem á henni heldur, að hann hafi mikil áhrif í breska þinginu þegar menn eru barðir til verka. Ég held að þetta hafi verið að færast í vöxt í seinni tíð þótt ég vilji ekki dæma um hvort það hafi færst í vöxt í seinni tíð en það er svona mín tilfinning.

Það hefur verið grátlegt að horfa upp á þingmenn, sérstaklega þingmenn sem koma nýir inn með hugsjónaeldinn í hjörtum sínum, sé beinlínis þröngvað til að samþykkja mál sem eru þeim mjög á móti skapi. Ég held að hægt sé að fara mjög illa með fólk með því að brjóta það niður á þennan hátt og tel það mjög varasamt. Ég held það skipti miklu máli upp á lýðræðið að menn beri virðingu fyrir hugsjónum annarra, einnig þeirra sem eru í þeirra eigin röðum. Við erum að búa til mjög harðneskjulega pólitík með þessum hætti. Það þarf mjög sterk bein, þau eru til en það eru undantekningar. Til eru þingmenn sem fara á móti straumnum. Hér er hv. þm. Pétur H. Blöndal sem oft hefur gert það en það reynir á menn. Við eigum að búa til aðra hugsun hvað þetta snertir í pólitísku lífi okkar. Ég tel það mikilvægt. Hér er ég að tala um innri afstöðu manna. Við eigum ekki bara að líta á þetta sem ráðherraræði, heldur líka undirgefni sem mönnum er innrætt með þessum vinnubrögðum. Vissulega eru til dæmi um að fólk reyni að fara gegn straumnum en þá er reynt að setja á það alls kyns stimpla, um að eitthvað annarlegt vaki fyrir því og það sé ekki af eðlilegum orsökum sem það fylgi sannfæringu sinni. Þetta tel ég skipta miklu máli ef við ætlum að ná þeim markmiðum að efla þingið og löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Mátum þessar hugmyndir inn í þau þrjú atriði sem ég nefndi varðandi styrkingu þingsins. Ef við hefðum ótakmarkaða peninga kynni dæmið að horfa öðruvísi við en í þeirri stöðu sem við búum við núna, að peningarnir eru takmarkaðir og við þurfum að fara vel með þá. En ég tel að þeim sé betur varið með því að styrkja innra starf þingsins, nefndasvið og annað slíkt, en með því að fjölga einstaklingum sem koma hér við sögu.

Varðandi stjórnarandstöðuna, sem ég tel að þurfi að huga að, þá mundi þetta hlutfallslega draga úr vægi hennar. Hennar hlutur yrði að mörgu leyti erfiðari. Ef við gefum okkur til dæmis að eftir næstu kosningar fengi — við skulum bara vera hófsöm í væntingum — Vinstri hreyfingin – grænt framboð tólf þingmenn og myndaði stjórn með Samfylkingu og Frjálslynda flokknum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð fengi þetta fjóra til sex ráðherra og við værum þá í raun orðin átján. Gefum okkur að í kosningum fengi Framsóknarflokkurinn fjóra þingmenn og engan ráðherra: Fyndist mönnum það sanngjarnt? Ég hugsa að þjóðinni fyndist það sanngjarnt af því að nóg væri komið af Framsóknarflokknum yfirleitt, eftir tíu ár á valdastólum. Ég er ekki viss um að þetta yrði til þess að styrkja þingið. Þetta mundi tvímælalaust veikja stjórnarandstöðuna hlutfallslega í hinni pólitísku umræðu.

Rétt er að það getur verið erfitt fyrir litla flokka að sinna öllum skyldum sínum, t.d. sitja nefndarfundi, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi áðan. En það er bara veruleikinn. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum bara fimm og við fengum ekki meiri styrk frá kjósendum en það. Við verðum einfaldlega að taka því og laga okkur að þeim aðstæðum. Við viljum hins vegar að þingið komi til móts við okkur með því að auðvelda okkur vinnu með sérfræðiaðstoð og með öðrum hætti. En ég get alveg upplýst að litlir flokkar eru ekki óduglegri að sækja nefndarfundi en stórir flokkar, meira að segja mjög stórir flokkar. Það er önnur saga sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér.

Ég tel að þetta væri ekki skynsamleg leið. Ég held hins vegar að við eigum að reyna að ná þeim markmiðum sem talað er fyrir í málinu. Við eigum að reyna að efla þingið. Við eigum að reyna að gera skilin á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds skýrari en það gerum við ekki með þessum hætti. Ég vil nota peningana á annan hátt. Ég tel reyndar að þegar menn setja svona þingmál fram, sem er góðra gjalda vert, til að fá um það umræðu og fylgja sannfæringu sinni, að sjálfsögðu, væri æskilegt að fara nánar í fjárhagslegar hliðar málsins. Við erum að velta fyrir okkur valkostum til að ná markmiðum sem ég held að við séum, þegar allt kemur til alls, flest sammála um.