131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórnarskipunarlög.

177. mál
[12:56]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki náð að fylgjast betur með umræðunni, en í tilefni af orðum hv. þm. Einars Karls Haraldssonar að lokum ræðu sinnar um það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði um að styrkja þingið, þá vil ég spyrja hann og tek fram að ég er meðmæltur tillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, hef lengi verið áhugamaður um þær hugmyndir sem þar koma fram, en ég spyr: Er ekki þörf á því þegar þetta er gert að styrkja þingið og sérstaklega styrkja stjórnarandstöðuna á þinginu jafnframt? Því það sem við horfum fram á í þessum heimi hér, sem er ekki bestur allra heima en sá heimur sem við verðum ósköp einfaldlega að búa við, er að núna er þetta þannig að stjórnarandstaða sem fær segjum 31 mann á þingið, hún er með þennan 31 mann en hinir eru með 32, þessir 32 fá að auki aðstoðarmenn í ráðuneytunum, þannig að þar bætist við. Ef ráðherrar eru ekki inni á þinginu koma í núverandi stöðu 12 þingmenn inn á það í viðbót, þannig að þessi tæpi meiri hluti sem er fræðilega mögulegur, allt í einu fjölgar hann sér og fjölgar í opinberum stöðum þar sem menn eru meira og minna í pólitískum störfum líka, því aðstoðarmenn eru það auðvitað alla jafna þó á því séu undantekningar.

Þess vegna hef ég alltaf hugsað þetta þannig að samhliða þessari breytingu, ég tek undir að hún er gerð fyrst og fremst til að greina að framkvæmdarvald og löggjafarvald, en samhliða slíkri breytingu verði líka að styrkja þingið og ekki síst stjórnarandstöðuna, þannig að niðurstaðan verði ekki sú að auka enn á vald meiri hlutans á þinginu og raunverulega vald ríkisstjórnarinnar sem situr.