131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[13:56]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað eiðstafinn varðar er það þekkt á þessu sviði að það er nokkurs konar drengskaparheit sem menn gefa sem taka þessi störf að sér um að vinna þau með ákveðnum hætti og eru bundnir ákveðnum trúnaði hvað málið varðar.

Mér finnst sjálfsagður hlutur að menn fari yfir þau atriði sem snúa að framkvæmd málsins í landbúnaðarnefnd þar sem málið verður til umfjöllunar. Ég kann þau ekki öll hér og nú og vil ekki fara að rekja þau en ég held að mjög mikilvægt sé að landbúnaðarnefnd fari yfir þau með landbúnaðarráðuneytinu, forsvarsmönnum æðardúnsbænda og öðrum þeim sem nefndarmenn vilja hitta og fara yfir málið með.