131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:20]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ekki fannst mér hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sannfærandi en það sem mér kannski sárnaði í ræðu hans var að hann reyndi að blekkja. Það kann ég aldrei við. Hv. þingmaður veit vel að það hafa verið opinberir dúnmatsmenn allt frá 1970. Hér er verið að endurskoða lög frá 1970. Opinberir dúnmatsmenn hafa verið á Íslandi allt frá 1970. Það er ekki nýtt fyrirbæri. Það er ekki verið að búa til neinn nýjan eftirlitsiðnað. Verið er að setja þetta í það form að ESA sætti sig við að jafnræði sé innan lands og erlendis. Þessir menn hafa verið starfandi hér á landi. Þeir eru ekki fjölmennir og æðardúnsbændur þekkja þá allir sjálfsagt af störfum þeirra. Um fimm menn hafa verið að störfum. Það er búið að vera í gangi sennilega lífstíð hv. þingmanns, ekkert nýtt og engin nýr eftirlitsiðnaður að koma, heldur telur atvinnugreinin, sem er mjög sérstök, mjög mikilvægt að halda þessu í þessu formi til að geta staðið vel að sínum málum. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að ekki er verið að setja þessari grein eitthvað sem hún ekki þekkir. Lögreglustjórinn hættir að skipa mennina. Landbúnaðarráðherra gerir það héðan í frá ef þetta verður að lögum. Það er breyting hvað það varðar. Þessir menn hafa því verið að störfum hér. Við skulum hafa það alveg á hreinu, hv. þingmaður, að við erum ekki að búa til neitt kerfi eða neinar flækjur. En það er atvinnugreinin sjálf sem hefur búið við þetta áratugum saman sem telur vegna sérstæðu sinnar á heimsmarkaði — enda er dúnninn seldur á hæsta verði út um heim og bændurnir fá auðvitað misjafnt verð. Stundum er það hátt og stundum fellur það. En eins og hér kom fram í ágætri ræðu hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur erum við stórir á þessum markaði, heimsmarkaði, líklega með ein 80% á markaðnum þannig að við þekkjum hann vel.

En ég vil taka það alveg skýrt fram að menn verða að lesa frumvarpið til að fjalla um það.