131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:22]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sá sem hér stendur reyndi ekki að blekkja einn eða neinn og það er alveg ástæðulaust fyrir hæstv. ráðherra að lesa mér pistilinn af þeim ástæðum. Ég vil hins vegar gagnspyrja — vissulega hafa verið í gildi lög frá 1970 er varða eftirlit og mat á æðardúni. En þá spyr ég: Til hvers er þetta frumvarp undir þessum formerkjum? Það svarar ekki nema að litlu leyti athugasemdum ESA. Það mátti svara þeim á annan hátt. Það liggur alveg ljóst fyrir án þess að fara að njörva niður dúneftirlitsmenn. Það liggur algerlega í augum uppi. Ég hef efasemdir um nálgun þessa máls. Látum það vera.

Ég saknaði þess í andsvari ráðherrans að hann setti í gírinn og setti sig í spor þeirra framleiðenda sem þarna eiga hlut að máli, þeirra bænda sem margir eru á sjávarjörðum og færi aðeins yfir það hvort hann deildi ekki þeim áhyggjum mínum af því að staða þeirra væri að verða svipuð og annarra bænda, að þeir sæju minnst af virðisaukanum. Það er rétt að verðið er sveiflukennt í þessum efnum og ekki á vísan að róa þegar kemur að verðlagningu. En hins vegar hefur verðið verið þokkalegt um talsvert árabil, í dálitlum sveiflum þó, en skilaverð til bændanna sjálfra hefur nánast verið óbreytt um langt árabil. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi farið ofan í þessa verðmyndun og kannað hvort hann gæti aðstoðað og komið þar að frekar en hnykkja á og styrkja enn frekar eftirlitsiðnaðinn í þessum efnum.