131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:24]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil einnig taka fram vegna spurningar hv. þingmanns áðan um 1., 2. og 3. flokk sem hann ræddi dálítið um, að menn gætu fengið þetta, að matið snýst heldur ekki um að meta æðardúninn í 1., 2. eða 3. flokk. Það snýst í rauninni ekki um flokkun. Annaðhvort er æðardúnninn hæfur til sölu eða ekki og það er skýrt tekið fram í frumvarpinu að æðardúnsmennirnir verða að þekkja til æðarfuglsins o.s.frv.

Ég er orðinn dálítið þreyttur á þeirri umræðu sem oft fer fram að allir bændur séu fátækir með hor í nefi. Það er ekki þannig. Þeir eru misefnaðir eins og þessi þjóð. Sumir eru efnaðir, margir hafa það ágætt. Í mörgum atvinnugreinum hefur orðið samdráttur og umbreytingar miklar en þetta er fólk sem margt hefur, sem betur fer ekki síst út af dugnaði sínum eða framsýni prýðileg lífskjör þó að þau hafi dálítið breyst á seinni árum hvað meðaltal varðar og sumar atvinnugreinar hafi lent í erfiðleikum á ákveðnum tíma. Ég nefni loðdýrarækt sem hefur tekið sókn upp á við á nýjan leik þrátt fyrir dollarann, ég nefni sauðfjárrækt sem nú er í sókn og ég hygg að æðardúnsbændur hafi verið mjög hyggnir með sinn æðardún. Þeir vita hvað heimsmarkaðsverðið er. Stundum geyma þeir æðardúninn og bíða þess tíma að verðið hækki. Þeir hafa því verið klókir bændur, æðardúnsmenn, og varir um atvinnuveg sinn.

Ég hygg að hér sé mál sem fullnægi þeirri athugasemd sem ESA hefur gert um stöðu málsins. Greinin sjálf, allir þessir æðardúnsbændur sem ekki síst búa á sjávarjörðum eins og komið hefur fram telja þetta mikilvægt til að verja lífskjör sín. Það skilur hv. þingmaður kannski betur en annað.