131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:37]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér deilt áhyggjum hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar um hvað sé að gerast á íslenskum vinnumarkaði. Með háu gengi íslensku krónunnar og lágu gengi dollarans verður æ erfiðara að stunda arðbærar útflutningsgreinar hér á landi. Nýjasta dæmið, eins og við heyrðum í fréttum nýverið, er t.d. að Hampiðjan sagði að vatnaskil hefðu orðið í rekstri sínum til mikilla bóta þar sem hún væri komin með alla starfsemi sína sem krefðist vinnuafls úr landi og að þetta væri einhver happafengur fyrir rekstur Hampiðjunnar. Ég kalla það ekki happafeng að svo sé komið að hver iðngreinin á fætur annarri fari úr landi vegna þess að þangað sé hægt að sækja ódýrara vinnuafl. Það kalla ég ekki happafeng Ég tel að við hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson eigum að einbeita okkur að því að styrkja samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar gagnvart erlendum þannig að hægt sé að greiða innlendu fólki, hvort sem það eru íslenskir ríkisborgarar eða einstaklingar sem koma hingað til starfa tímabundið erlendis frá, góð laun, þ.e. að þeir fái líka góð laun eins og Íslendingar.

Það er samkeppnisstaðan sem skiptir máli, tel ég, hvort sem hún lýtur að hreinsun dúns eða vinnu í Hampiðjunni eða hvað það er. Það er hún sem skiptir máli og það er hún sem er að skekkjast. Og þá fer fleira úr landi en Hampiðjan, dúnhreinsunin, skipasmíðaiðnaðurinn o.s.frv. Það verkefni, hv. þingmaður, sem ég held að við þurfum að takast á við er að snúa samkeppnisumgerð íslensks iðnaðar íslensku launafólki í hag. (PHB: Lækka launin?) Hækka launin.