131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:40]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek bara undir með hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að frumvarpið snýst um að hér sé unnin og seld toppgæðavara á sem hæstu verði í sátt við náttúruna sem í þessu tilviki er æðarfuglinn.

Vel má vera að skerpa þurfi á fleiri atriðum en því matskerfi sem hér er til umræðu. Ég tel eðlilegt að hv. landbúnaðarnefnd skoði fleiri þætti sem gætu orðið til þess að styrkja og efla stöðu æðardúnsbænda og æðardúnsiðnaðar. Ég tel alveg sjálfsagt að skoða fleiri þætti en þann sem hér er verið að tala um, þ.e. þessa matsmenn.

Ég ítreka að það er einstakt að þarna erum við að nýta afurð af dýrum, æðarfugli í þessu tilviki, þar sem gert er ráð fyrir að fuglinn lifi og tímgist og verði til og að dúntekjan sem slík hafi ekki áhrif á það heldur á hinn veginn þveröfugt við það sem gildir um annan iðnrekstur. Því er eðlilegt að um þetta gildi svolítið önnur ákvæði en annars.

Ég tek bara síðan undir með hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni um að þetta er búskapur sem við erum stolt af að geta eflt og styrkt og við viljum gera allt sem hægt er til að svo megi verða. (Gripið fram í.)