131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:43]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með umræðum hér um þetta litla frumvarp af áhuga og eftir því sem líður á umræðurnar verð ég að segja að efasemdir mínar um frumvarpið vaxa í raun í réttu hlutfalli við ræðutímann. Mér finnst svo margt í þessu frumvarpi svo óskýrt að maður hlýtur að setja spurningarmerki við texta þess.

Ég veit ekki hvort hæstv. landbúnaðarráðherra getur svarað nokkrum spurningum mínum. Hann gat ekki svarað neinum spurningum mínum áðan þegar ég var í andsvari við hann. Samt vil ég nota tækifærið nú við 1. umr. til að velta aðeins vöngum yfir þessu.

Getur verið að þetta frumvarp, nái það fram að ganga í óbreyttri mynd, komi í veg fyrir útflutning á óunnum æðardúni? Er verið að skilyrða að æðardúnn skuli eingöngu hreinsaður hér á landi? Er það rétt? Hér verðum við að fá algjörlega afdráttarlaus og skýr svör.

Þessi grein er stunduð af fáum aðilum í atvinnuskyni svo heitið geti. Getur verið að að samningu frumvarpsins hafi komið a.m.k. tveir aðilar — þá er ég að tala um nefndina sem samdi frumvarp — sem vinna við þessa grein, annars vegar við framleiðslu á dúni og hins vegar við hreinsun og útflutning? Ég spyr sem sagt hvort það geti verið að augljósir hagsmunaaðilar hafi haft mikið að segja við samningu þessa frumvarps eins og það lítur út núna þegar það kemur fyrir hið háa Alþingi frá landbúnaðarráðuneytinu.

Mig langar líka til að velta aðeins fyrir mér frumvarpinu út frá hinum svokölluðu dúnmatsmönnum. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra hefur bent á að hér er í raun gerð gangskör að því að breyta eldri lögum, sem hafa verið í gildi frá 1970, í 35 ár. Þar er einnig talað um dúnmatsmenn. Ég hef gamla lagatextann fyrir framan mig og þar segir að lögreglustjóri skuli skipa dúnmatsmenn á þeim stöðum er landbúnaðarráðuneytið telur þörf á, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands.

Í nýja textanum stendur í 3. gr., með leyfi forseta:

„Landbúnaðarráðuneytið gefur út leyfi til handa dúnmatsmönnum til starfa á þeim stöðum sem það telur þörf á að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands og Félags íslenskra stórkaupmanna.“

Maður hlýtur að spyrja: Hvað á að felast í starfi dúnmatsmanna? Hljótum við ekki að verða að gera kröfur um hæfni, menntun og um hlutleysi dúnmatsmanna? Þá er ég að tala um skrifuð orð á pappír en ekki eitthvert huglægt mat embættismanna í landbúnaðarráðuneytinu, starfsmanna Bændasamtaka Íslands eða Félags íslenskra stórkaupmanna.

Við hljótum líka að spyrja hvort, ef þetta mat á að fara fram hér á landi af löggiltum dúnmatsmönnum, ekki þurfi að búa til staðla yfir það hvað sé góður æðardúnn og hvað sé lélegur æðardúnn. Eru þessir staðlar til? leyfi ég mér að spyrja. Ég fæ ekki séð neins staðar í þessum texta, á þessum tveimur og hálfri síðu sem þetta frumvarp er með skýringum, að þar sé bent á að fyrir hendi séu staðlar um hvernig góður æðardúnn eigi að vera.

Mér finnst það réttmætt þegar bent er á það að fyrirtæki á Íslandi, m.a. vegna hárra launa, flytji starfsemi sína utan. Maður hlýtur að spyrja sig hvort banna eigi framleiðendum æðardúns að flytja út dún til hreinsunar erlendis, telji þeir að slíkt geti skapað hagræði, til að mynda að slíkt geti skapað betri afkomu hjá framleiðendum, þ.e. æðarbændum. Við lestur þessa frumvarps hlýtur að þurfa að velta slíkum spurningum fyrir sér. Við vitum að hreinsun á æðardúni hefur verið talin frekar leiðinleg vinna og kannski sóðaleg. Ég veit það ekki, sennilega er hún illa borguð eins og slík handavinna við iðnvarning yfirleitt er. Það væru nýmæli og tíðindi ef það væri hálaunastarf að sitja og hreinsa æðardún.

Ég hlýt líka að spyrja: Hver kallar eftir þessu gæðamati? Hver kallar eftir því að fyrir hendi séu einhverjir lögskipaðir dúnmatsmenn? Er það markaðurinn? (Landbrh.: Hvort tveggja.) Eru það kaupendur æðardúns? Höfum við eitthvað fast í hendi um að kaupendur æðardúns geri kröfu um að sérstakir matsmenn séu látnir meta hvað sé góður dúnn og hvað sé lélegur dúnn? Er ekki eðlilegra, ég leyfi mér að velta þeirri spurningu upp, að kaupendurnir sjálfir ákveði hvað sé góð og léleg vara? Er það ekki eðlilegt í heilbrigðu markaðssamfélagi að neytandinn fái að ráða?

Við hljótum virðulegi forseti, að velta svona spurningum fyrir okkur þegar við fjöllum um frumvarp sem á að leysa af hendi 35 ára gömul lög sem voru samin við allt aðrar aðstæður, allt aðra heimsmynd, hugsanlega við allt aðrar markaðsaðstæður en nú eru. Núna rúmum þremur áratugum síðar er heimurinn gerbreyttur, heimurinn hefur minnkað, allar leiðir hvað varðar aðflutning og þess háttar hafa gerbreyst. Hugtök, t.d. atvinnusvæði, eru gerbreytt frá því sem áður var og þykir ekkert tiltökumál að hráefni sem aflað er hér á landi sé fullunnið í öðrum löndum þar sem vinnuafl er ódýrara.

Það kann að vera að einhverjum þyki ósvífið að velta þessum spurningum upp. Ég tel að fyrst að við erum á annað borð að íhuga að setja lög varðandi starfsumhverfi þessarar merkilegu greinar, framleiðslu á æðardúni, þá værum ekki að sinna störfum okkar ef við leyfðum okkur ekki að hugsa upphátt um þessa hluti, velta því fyrir okkur hver tilgangurinn er með þessari lagasetningu og ekki síður, eins og einn hv. þingmaður minntist á áðan, að velta fyrir okkur: Hvert er markmiðið með því að setja sérstök lög um gæðamat á æðardúni? Lög sem mér reyndar virðast, eins og textinn er núna og ég benti á hér áðan í andsvari, snúast meira um að búa til stöður dúnmatsmanna.