131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:56]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Talandi um eftirlitsiðnaðinn í sjávarútvegi þá er þar um að ræða skelfilega ófreskju sem ég vildi að væri miklu minni en hún er í dag. Þar hefur miklu trölli verið leyft að lifa allt of lengi, vaxa og stækka langt fram yfir eðlileg mörk. Forsvarsmenn sjávarútvegsins hafa margoft bent á það enda er þeim farinn að ofbjóða sá mikli kostnaður sem af því hlýst.

Talandi um kostnað þá kemur einmitt skýrt fram í þessu frumvarpi að kostnaður af störfum dúnmatsmanna skuli greiðast af matsbeiðanda í samræmi við gjaldskrá sem landbúnaðarráðuneytið á að fastsetja. Hverjir eru matsbeiðendur í þessu tilviki? Við, sagði hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir. Hver erum „við“ í þessu tilfelli? Eru það yfirvöld eða við í þingsalnum eða hverjir biðja um þetta mat?

Ég skil orðanna hljóðan þannig að matsbeiðendur verði annaðhvort framleiðendur, þ.e. æðarbændur, eða útflytjendur. Þeir eiga að bera kostnaðinn af þessu en ekki kaupendur. Það hljóta samt að vera kaupendur sem ráða og skera úr um hvað sé góð vara eða slæm. Það hefur líka komið fram.

Svo ég hugsi svolítið upphátt þá má vel vera að ég hafi rangt fyrir mér, ég veit það ekki, en við eigum eftir að fara vel yfir þetta mál í landbúnaðarnefnd. Mér er það ljóst eftir þessar umræður. Hér vakna svo margar spurningar að þetta verður rætt í þaula. Ég vona að sem flestir hagsmunaaðilar verði kallaðir á fund nefndarinnar til að ræða þetta. En ég fæ ekki betur séð en að ætlunin sé að búa til óþarfa millilið sem skapi aukinn kostnað og leiði til þess að afkoma bændanna verði verri.