131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[15:07]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er afar sérstætt að vera sakaður af hæstv. ráðherra, sem ég ber virðingu fyrir, ýmist um persónulegar svívirðingar eða dónaskap og síðan þegar maður spyr hvað hann eigi við verður fátt um svör. Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni heldur vil ég halda mig við kjarna málsins (Gripið fram í.) sem er hvort farið hafi verið að reglunum. Hann segist fullvissa mig um það. Ég er samt ekki fullvissaður um það þó að hæstv. ráðherra segi það hér. Ef lögin eru lesin kemur þetta fram í 3. gr.: „Þegar stjórnarfrumvarp sem felur í sér ákvæði um eftirlit er lagt fyrir ríkisstjórn skal leggja fram greinargerð um mat skv. 1. mgr.“ — Svo las ég þessa 1. mgr. áðan fyrir hæstv. ráðherra og það verður ekki annað séð en að ég hafi rétt fyrir mér í þessu máli og hæstv. ráðherra alrangt. Mér finnst að það þurfi að skera úr um það, að við séum ekki að deila um það í þessum ræðustól. Mér finnst vera kominn tími á það.

Það er afar sérstætt þegar menn fara að ræða, og jafnvel hæstv. ráðherrar, hvað einhverjir viti og viti ekki um ákveðið málefni. Hvað veit hann um hvað ég veit eða hvað ég veit ekki? Mér finnst það vera mjög sérstakt og í rauninni ekki hæstv. ráðherra til framdráttar að vera að fullyrða svona út í loftið.