131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[15:13]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér er mikið búið að ræða í dag um æðarrækt og æðardúnsbændur og má segja að þetta sé að verða eitt aðalmálefni vetrarins, a.m.k. hjá hv. landbúnaðarnefnd. Til upplýsingar má geta þess að á árinu 2001 voru flutt út 3.044 kg af fullhreinsuðum æðardún og var heildarútflutningsverðmæti þessa magns 187,6 millj. kr. Á árinu 2002 var magnið 2,9 tonn og útflutningsverðið 197 millj. kr. Árið 2003 var magnið 2,2 tonn og útflutningsverðið 139 millj. Á síðasta ári voru flutt út 2.160 kg og var útflutningsverðið tæpar 160 millj. kr. Á árinu 2004 var útflutningsverðmæti æðardúns í kringum 73 þús. kr. kg. Þetta eru þær opinberu tölur sem eru gefnar upp.

Það fer ekkert á milli mála að aðalmarkmið þessa frumvarps er að æðardúnn verði ekki fluttur út óhreinsaður. Um það snýst málið. Það hefur komið fram í umræðum í hv. landbúnaðarnefnd hvað það skiptir miklu máli að það sé gott mat á dúninum þegar hann fer úr landi og að ávallt sé hægt að stimpla þessa vöru sem íslenska hágæðavöru. Löggilding dúnmatsmanna hefur verið frá árinu 1970 og það er ekki verið að breyta því, það er verið að tryggja að svo verði áfram.

Verðið á dúninum var í fyrra 73 þús. kr. kg og það sorglega í þessu er, eins og fram hefur komið fyrr í dag, að virðisaukinn sem er upp í hálf til ein millj. kr. skuli ekki verða hér á Íslandi. Auðvitað er það áhyggjuefni okkar allra að það skuli ekki vera þannig. Við sjáum t.d. hvernig það hefur farið með ullariðnaðinn. Hann er á brauðfótum hjá okkur og þetta er nokkuð sem við höfum áhyggjur af og það er vegna þess að vinnukostnaðurinn er svo hár hér á landi að iðnaðurinn ræður ekki við hann, ræður ekki við að keppa við Eystrasaltslöndin, Kína eða Indland. Þetta sjá öll ríki í kringum okkur, þessa útvistun á verkefnum. Við þessu þurfum við að bregðast og reyna að finna tækifærin sem þó felast í þessu á móti. Það hljóta alltaf að vera einhver tækifæri líka.

Landbúnaðarnefnd mun fara mjög vel yfir þessi mál. Margir verða kallaðir til og erindið sent mörgum aðilum til umsagnar. Auðvitað eru margir hliðar á hverju máli og allir þurfa að fá að koma sinni skoðun að á þessum málum. Líklegast stunda um 400 bændur æðarrækt í landinu en fimm stærstu aðilarnir sem eru í útflutningi eru Íslenskur æðardúnn og Zófonías Þorvaldsson, Læk í Dýrafirði, XCO heildverslun og Jónas Helgason frá Æðey, Jón Sveinsson iðnrekandi, Himinn sf., þ.e. Hilmar Kristinsson og Þórunn Hilmarsdóttir, Skarði, Skarðsströnd, Jóhann Steinsson heildsali, Pétur Guðmundsson Ófeigsfriði og Friðgeir Snæbjörnsson frá Stað Reykjanesi. Þetta eru stærstu aðilarnir og að sjálfsögðu munu þeir fá að koma að athugasemdum við þetta frumvarp. Eins munum við leita til annarra sem við þekkjum til og nefndarmenn vilja að fái að láta álit sitt í ljósi. Bændasamtökin verða kölluð til o.fl. og ég sé fram á mjög skemmtilegar umræður í landbúnaðarnefnd. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að finna sátt í málinu þannig að við eyðum þeirri tortryggni sem er í garð þessa máls og landbúnaðarnefnd mun örugglega vinna þetta vel eins og hún hefur ávallt gert.