131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Almannatryggingar.

229. mál
[15:19]

Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Frumvarpið er stutt. Þetta er breyting á 37. gr. laga um almannatryggingar og hljóðar 1. gr. þess svo:

„1. gr. 37. gr. laganna orðist svo:

Fyrir almenna tannlæknaþjónustu greiðir Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt samningum, sbr. 39. gr. Takist ekki samningar skv. 39. gr. er ráðherra heimilt að setja gjaldskrá. Gjaldskráin gildir bæði um tannlækningar sem starfræktar eru á vegum hins opinbera og annarra. Greiðslur sjúkratrygginga skv. 1. mgr. skulu vera sem hér segir:

1. Fyrir almennar tannlækningar barna og ungmenna, 20 ára og yngri., 100% kostnaðar.

2. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta tekjutryggingar, 100% kostnaðar.

3. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta ekki tekjutryggingar, 75% kostnaðar. Fyrir gullfyllingar, krónur, brýr og tannplanta gilda sérstakar reglur sem ráðherra setur. Heimilt er að hækka greiðslur fyrir þessa bótaþega í allt að 100% eftir reglum sem ráðherra setur.“

2. gr. hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Hæstv. forseti. Í greinargerðinni kemur fram að í frumvarpinu sé gerð sú breyting á 1. mgr. 37. gr. laga um almannatryggingar að felld er niður tilvísun í tannréttingar. Í stað þess er vísað til almennra tannlækninga, en það hugtak skýrir sig að nokkru leyti sjálft. Hér er um að ræða forvarnir, almennar viðgerðir og tannréttingar aðrar en þær sem gerðar eru með föstum tækjum en um slíkar tannréttingar, svo og gullfyllingar, krónu- og brúargerð, gilda reglur sem vísað er til í 33. gr. almannatryggingalaga og eiga aðallega við um börn og unglinga.

Í frumvarpinu er lagt til Tryggingastofnun ríkisins greiði fyrir almennar tannlækningar barna og ungmenna 20 ára og yngri, svo og fyrir elli- og örorkulífeyrisþega. Kveðið verði á um form reikninga fyrir tannlæknaþjónustu í samningum við tannlækna eða gjaldskrá.

Hæstv. forseti. Frumvarp þetta var lagt fram á hv. Alþingi 25. október sl. og var unnið með tilliti til þess að ljóst hefur verið um nokkurt skeið að breytinga hefur verið þörf á þessum lið almannatrygginga. Nýverið flutti hæstv. heilbrigðisráðherra frumvarp á Alþingi sem lýtur að sömu grein laganna og í því frumvarpi, sem nú liggur hjá hv. heilbrigðisnefnd til afgreiðslu, er gert ráð fyrir að reglur um greiðsluskiptingu og þátttöku almannatrygginga verði settar í reglugerð. Í því frumvarpi sem hér er lagt fram og ég mæli fyrir er farin sama leið og er í núverandi lögum að segja nákvæmlega til um hvernig endurgreiðsla kostnaðar skuli vera.

Þó að frumvarpið sé búið að liggja nokkurn tíma á þinginu án þess að komast á dagskrá, samanber að þingskjalsnúmerið er það lágt eða 235 og hefur fylgt afgreiðslu á þingskjölum, er lítið við því að segja þó að mælt hafi verið fyrir frumvarpi hæstv. ráðherra með litlum fyrirvara og það liggi nú hjá heilbrigðis- og trygginganefnd. Þessi tvö frumvörp munu því að öllum líkindum fara út samhliða til umsagnar og er það von mín og ósk að litið verði á þau samhliða við afgreiðslu í heilbrigðis- og trygginganefnd og tekið tillit til þeirra umsagna sem fram koma. Vissulega er gert ráð fyrir því í stjórnarfrumvarpinu að kynnt sé í reglugerð þátttaka Tryggingastofnunar í kostnaði við tannlækningar og vissulega eru þar tillögur sem eru til bóta frá núverandi fyrirkomulagi og því ber að fagna. Ég tel að ganga þurfi lengra en þar er kynnt og ekki síður að gæta þess í framtíðinni að gjaldskrá tannlækna fylgi verðlagi svo að endurgreiðsluhlutfall almannatrygginga, sjúkratrygginga, sé í réttu hlutfalli við raunverulegan kostnað sem þeir einstaklingar verða fyrir sem eiga rétt á endurgreiðslu en sé ekki hlutfall af ákveðinni gjaldskrá sem er eins langt fjarri raunveruleikanum og er í dag. Það er ósk mín og von að hægt verði að ganga til samninga við tannlækna um gjaldskrá og að gengið verði þannig frá henni að hún hækki með eðlilegum hætti og fylgi verðlagi. Þess má geta að föst gjaldskrá hækkaði um 4% fyrir áramótin en það er ekki nærri nóg til þess að núverandi gjaldskrá ráðherra lýsi raunverulegri gjaldskrá tannlækna.

Við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum áður lagt fram frumvörp um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við tannlækningar en frá því að fyrri frumvörp voru lögð fram hefur greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar ríkisins aukist og er það vissulega mikilvægt eins og ég sagði áðan.

Á 130. löggjafarþingi lögðu flutningsmenn þessa frumvarps fram tillögu til þingsályktunar um tannvernd barna og unglinga. Í henni var lagt til að tannvernd barna og unglinga til 18 ára aldurs yrði efld og sérstök tannvernd ákveðinna aldurshópa yrði hluti ungbarnaverndar og skólaheilsugæslu. Einnig var lagt var til í þeirri þingsályktunartillögu að greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar ríkisins fyrir almennar tannlækningar barna og unglinga að 18 ára aldri yrði 90%.

Þingsályktunartillögunni var vísað til umfjöllunar í heilbrigðis- og trygginganefnd. Umsagnir um tillöguna voru í heild mjög jákvæðar. Í þeim kom fram að nauðsyn væri talin á að bæta tannheilbrigðiskerfið og auka greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins en hins vegar þótti sú skipan sem tillagan gerði ráð fyrir nokkuð flókin í framkvæmd. Með hliðsjón af þeirri athugasemd er hér lögð til einfaldari útfærsla og að Tryggingastofnun ríkisins greiði að fullu almennar tannlækningar fyrir 20 ára og yngri.

Það er ekki að ástæðulausu sem talin er þörf á því að bæta mjög þjónustu til að auka tannheilbrigði barna og unglinga. Árið 1986 voru skemmdar, tapaðar eða viðgerðar tennur hjá 12 ára börnum að meðaltali 6,6, þeim fækkaði í 3,4 tennur árið 1991 og voru komnar niður í 1,5 árið 1996 þegar síðasta könnun á tíðni tannskemmda meðal barna og unglinga var gerð. Helstu ástæður þessa árangurs eru taldar vera bætt efnahagsleg staða fólks, góð tannlæknaþjónusta, notkun flúortannkrems, flúormeðferð, bætt munnhirða og hugarfarsbreyting almennings í tannheilsumálum.

Árið 1986 var hlutfall 12 ára barna án tannskemmda 3,6% en árið 1996, 10 árum síðar, hafði þetta hlutfall hækkað í 47,5. Af þessum sökum hafa margir talið að tannheilbrigði barna og unglinga færi stöðugt batnandi en að mati margra tannlækna hefur ástandið breyst til hins verra á undanförnum árum, bæði hvað varðar tannskemmdir og glerungseyðingu. Ástæður þessa eru óljósar en dregið hefur úr markvissum forvarnaaðgerðum heilbrigðisyfirvalda auk þess sem það er staðreynd að greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar ríkisins í tannvernd og tannviðgerðum barna og unglinga hefur ekki fylgt verðlagsþróun eins og ég gat um áðan.

Þetta kom m.a. fram á málþingi um tannheilsu barna sem haldið var á Grand Hótel í Reykjavík 27. mars 2004. Því er nauðsynlegt að fá hið fyrsta niðurstöður úr nýrri könnun á sömu þáttum og endurtaka slíkar kannanir með reglubundnum hætti svo bregðast megi við breytingum á almennu heilsufari á þessu sviði. Það er ánægjulegt til þess að vitað að nú stendur könnun fyrir dyrum á munnheilsu Íslendinga sem Munnís mun standa fyrir og verður áhugavert að sjá niðurstöður þeirrar könnunar og vonandi að slíkar kannanir verði áfram reglubundnar og ekki sjaldnar en á fimm ára fresti.

Það er ekki bara að huga þurfi að börnum og unglingum heldur þarf einnig að huga að öldruðum hvað varðar endurgreiðslu og tannheilbrigði. Í nýrri skýrslu eru birtar niðurstöður fjórða áfanga könnunar á breytingum á tannheilsu Íslendinga 1985–2000 en hann nær til landsmanna 65 ára og eldri. Að gerð skýrslunnar stóðu Guðjón Axelsson, Tannlækningastofnun Háskóla Íslands, og Sigrún Helgadóttir. Þær umfangsmiklu upplýsingar sem aflað hefur verið um tannheilsu Íslendinga undirstrika mikilvægi þess að slíkum rannsóknum verði haldið áfram með reglulegu millibili í framtíðinni. Nauðsynlegt er að meta reglulega árangur af starfinu sem unnið er á þessu sviði heilsugæslu og greina í tíma breytingar sem verða á tannheilsu landsmanna þannig að bregðast megi við þeim. Í skýrslunni kemur fram að hlutfall þeirra sem eru tannlausir fer stöðugt lækkandi. Af þeim sem svöruðu voru 54,6% tannlausir í báðum gómum eða 17.599 manns og hafði fækkað um 22,4 prósentustig frá 1985.

Mjög sterk tengsl voru á milli tannleysis og aldurs, kynferðis, menntunar, tíma frá síðustu tannlæknisheimsókn og tíðni tannlæknisheimsókna. Einnig komu fram nokkuð sterk tengsl milli búsetu og tannleysis. Í könnuninni kom einnig fram að marktækur kynbundinn munur var á tannleysi, það er algengara meðal kvenna en karla.

Íslensk heilbrigðisáætlun til ársins 2010 tekur mið af markmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Alþjóðasamtaka tannlækna. Í þeirri áætlun kemur fram að mikilvægustu verkefni næstu ára hvað aldraða varðar er að vinna að því að fullorðnir hafi a.m.k. 20 tennur í biti, draga úr tannleysi aldraðra og tryggja aðgengi allra þjóðfélagshópa að tannlækningum. Enn fremur verði að koma betra skipulagi á til þess að fylgjast með tannheilsu þjóðarinnar.

Tannheilsa aldraðra hefur batnað og fólk er betur meðvitað um tannheilsu og útlit. Betra aðgengi að tannheilbrigðisþjónustu og bættur fjárhagur fjölmargra aldraðra hefur haft afgerandi áhrif. Ný vandamál í munnholi koma upp með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar og í staðinn fyrir tannskemmdir er tanneyðing orðin töluvert vandamál. Sjúkdómar í tannholdi fylgja hækkandi aldri og breyttum lífsstíl.

Tanndráttur og falskar tennur var viðurkennd meðferð við lélegri tannheilsu fram á seinni hluta síðustu aldar en ætti að heyra fortíðinni til þegar hægt er að byggja upp bit með öðrum hætti. Tannlæknisfræðin þróast hratt með nýrri tækni og efnum svo möguleikar skapast til að stuðla að betra tann- og tannholdsheilbrigði, betra biti og minna tannleysi. Í dag vilja flestir halda sínum tönnum og bæta tannleysi með öðrum ráðum en að láta rífa tennur fyrir heilgóma. Það er því miður of algeng lausn, þar sem hún er í mörgum tilfellum ódýrust fyrir aldraða einstaklinga.

Flutningsmenn þessa frumvarps telja að miðað við stöðu mála þurfi verulegt átak til að koma tann- og munnholsheilsu ungmenna í betra horf. Greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar ríkisins vegur þyngst ef veita á börnum og unglingum tannheilbrigðisþjónustu óháð efnahag foreldra. Í könnun á hlutfalli barna sem ekki skila sér í eftirlit til tannlækna á Íslandi og birt var í 1. tbl. Tannlæknablaðsins 2002 kom fram að fjöldi barna sem engrar tannlækningaþjónustu nýtur hefur aukist. Í rannsókninni var ekki hægt að greina hvaða hópur barna það er sem ekki skilar sér en talið líklegt að þau börn sem tilheyra þeim hópi þjóðfélagsins sem illa er staddur bæði fjárhagslega og félagslega tilheyri einnig þessum hópi. Tannheilbrigðisþjónusta aldraðra og öryrkja fellur undir það sama, faglegt mat á viðhaldi bits og tanna á ekki að vera háð efnahag hvers og eins.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að draga úr tannlæknakostnaði elli- og örorkulífeyrisþega við tannlækningar en þess eru mörg dæmi að efnalítið fullorðið fólk og öryrkjar hafi ekki getað leitað sér lækninga af fjárhagsástæðum. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til yrði dregið verulega úr jaðaráhrifum innan almannatryggingakerfisins á elli- og örorkulífeyrisþega.

Greiðsluhlutdeild hins opinbera í tannlæknakostnaði hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Árið 1974 hófust greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins til tannlækna. Á áttunda og níunda áratugnum var kostnaðarhlutdeild Tryggingastofnunar í útgjöldum heimilanna aukin jafnt og þétt á meðan samningur tannlækna og Tryggingastofnunar ríkisins var í gildi en eftir það hefur kostnaðarhlutdeild barna, aldraðra og öryrkja verið aukin. Hún hefur verið að breytast ár frá ári en í heildina stöndum við svo í dag að dregið hefur úr greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins eða sjúkratryggingasjóðs. Því er athyglisvert að skoða kostnaðarskiptingu Tryggingastofnunar og sjúklinga og breytingar á henni á liðnum árum. Þar kemur fram að þegar dregið var úr stuðningi hins opinbera á árunum 1992–93 jókst greiðslubyrði heimilanna að sama skapi eða úr 62% af heildarútgjöldum í 75%, samanber skýrslu Hagsýslu ríkisins, Tannlækningar, skipulag og stjórnsýsla, sem gefin var út í júlí 1997. Árið 1996 var kostnaðarhlutdeild ríkisins 856 millj. kr., þar af 620,8 millj. kr. vegna þessara þátta, tannlækninganna, en útgjöld heimilanna voru 2.412 millj. kr. Ljóst er að þessar breytingar höfðu það jafnframt í för með sér að samanlögð útgjöld heimila og ríkisins vegna tannlæknaþjónustu drógust saman. Þar sem hvorki var um það að ræða að verð á tannlækningum hefði lækkað né að tannheilsan hefði batnað má draga þá ályktun að þessar breytingar hafi haft það í för með sér að fólk veigri sér við því að leita lækninga eða fyrirbyggjandi ráðstafana, enda staðhæfir fólk að svo sé, samkvæmt skýrslu landlæknis sem vísað var til að framan. Forsenda þess að draga úr útgjöldum heimilanna vegna tannlæknaþjónustu sjúkratryggðra er að í gildi sé gjaldskrársamningur tannlækna og Tryggingastofnunar ríkisins vegna sjúkratryggðra og greiðsluþátttaka hins opinbera verði aukin.

Til að halda útgjöldum við tannlækningar niðri er því mikilvægt að halda uppi stöðugri fræðslu, efla tannheilsugæslu og virkja þátt ábyrgðatannlækna svo nokkur dæmi séu nefnd. Það er mikilvægt að sátt náist um opinbera stefnu í tannheilbrigðisþjónustu svo áherslan beinist að þeim hópum sem mest þurfa á því að halda. Komið hefur fram það sjónarmið að breyta megi áherslum og forvörnum í tannheilsuvernd barna og unglinga og leggja meiri áherslu á ákveðna áhættuhópa, en draga jafnframt úr forvarnaaðgerðum meðal barna og unglinga sem hafa góða tannhirðu og heilbrigðar tennur.

Þetta tel ég að megi skoða með tilliti til þess að innan tannlæknastéttarinnar er hægt með góðu og markvissu eftirliti að beina eftirliti og öllum aðgerðum enn frekar að þeim sem meira þurfa á því að halda en forsenda þess er sú að vel sé haldið utan um alla einstaklinga og sérstaklega börn og unglinga fram að 20 ára aldri þannig að hægt sé að kalla hvern og einn inn til skoðunar og til viðgerða og að tilmælum læknis sé fylgt eftir svo kostnaðurinn dragi ekki úr því að foreldrar sendi börn sín til tannlæknis.

Hæstv. forseti. Fyrr í vetur var töluverð umræða og skrif í blöðum um tannheilbrigði og tannheilsu eldri borgara. Það er von því að tækninni fleygir mjög fram hvað varðar möguleika á að bæta tannheilsuna og bit með öðrum aðferðum en að rífa úr tennur og setja heilgóma. Hægt er með aðgerðum að koma fyrir föstum pinnum og festa tennur, festa parta og setja á krónur sem í dag er ekki greitt fyrir en vitaskuld vilja aldraðir hafa bæði fallegt útlit og gott bit og það er líka forsenda fyrir góðri almennri heilsu og meltingu að geta á þessu fyrsta stigi meltingarinnar tuggið matinn vel. Því er mikilvægt að eldri borgurum sé vísað á þá möguleika sem nú eru til staðar en ekki síður að kostnaðurinn sé ekki eins óheyrilegur og hann er í dag fyrir marga. Ekki er óalgengt að ein föst tönn komin upp í munn sé á bilinu 200–300 þús. kr. Þessu hef ég heyrt fleygt án þess að hafa nokkra gjaldskrá fyrir framan mig en þetta eru þær tölur sem ég heyri frá þeim einstaklingum sem hafa fengið setta upp fasta tönn.

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem hefur verið dreift og kynnt og er komið til heilbrigðisnefndar er, eins og ég les þetta, gert ráð fyrir að hámarksendurgreiðsla á slíkum viðgerðum verði 80 þús. kr. og geti farið niður í 40 þús. kr. hjá ákveðnum hópum þannig að þarna ber enn mikið í milli. Ég tel mikilvægt að skoða þetta í samhengi, þ.e. verðskrá tannlækna og endurgreiðslur og hvernig eigi að hvetja fólk, börn og fullorðna, til að hirða tennur sínar þannig að það þurfi síður að koma til þess að missa tennurnar á fullorðinsárum.

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta tölu minni lokið og vonast til að frumvarpið verði sent út til umsagnar ásamt því frumvarpi sem nýlega er búið að vísa til heilbrigðisnefndar og að það verði afgreitt í vor.