131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórn fiskveiða.

239. mál
[17:03]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Frumvarpið getur fullkomlega staðið hvort sem menn eru með kvótakerfi eða aðra stýringu á veiðum. Ég verð að segja alveg eins og er að ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður er að fara þegar hann talar um að allar þær rannsóknir sem hér eru nefndar þurfi að fara fram áður en menn beita stýringunni sem hér er nefnd til. Hún er reyndar stýring til viðbótar við aðrar stýringar. Mesta stýring í fiskveiðum hefur verið fólgin í svæðalokunum og öðrum slíkum veiðarfæratakmörkunum og aðferðum á undanförnum mörgum árum. Við erum ekki að tala um að breyta því eða draga úr því. Við erum að tala um að gera upp á milli veiðarfæra eftir þeirri þekkingu sem nú liggur fyrir og mun liggja fyrir og ætlumst til þess að þeirrar þekkingar sé aflað kerfisbundið og alltaf til að bæta stýringuna. Það er hugmyndin á bak við það sem við setjum fram.

Ég skil ekki almennilega það sem hv. þingmaður var að tala um. Hann lýsti áhrifum veiðarfæra sem hann hefur séð, fylgst með í myndavélum o.s.frv. og lýsti þeim prýðilega áðan. Hann gerir sér greinilega fulla grein fyrir því að gríðarlegur munur er á áhrifum veiðarfæra eftir því hver þau eru, en er ekki tilbúinn til þess að skrifa undir að þeir sem nota vistvænustu veiðarfærin eigi að fá að njóta þess; að tonn eða dagar til að veiða eigi bara að gilda en ekkert eigi að koma til móts við menn eftir því hvernig þeir ganga um veiðisvæðið eða lífríkið. Það er það sem leggjum til að verði gert.