131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórn fiskveiða.

239. mál
[17:05]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvaða vitneskju ætla menn að leggja til grundvallar til að leggja á allt að 10% álag á mismunandi veiðarfæri? Á hvað ætla menn að horfa? Ætla menn að horfa á einhvers konar mat á því tjóni sem verður á botndýralífi, á botngerð þegar veiðarfærin eru notuð? Ætla menn að horfa á aðra umhverfisþætti eins og til að mynda olíunotkun? Við vitum náttúrlega að skip sem draga veiðarfæri brenna meiri olíu en skip sem stunda kyrrstæðar veiðar, t.d. netaveiðar og línuveiðar. Hvaða mælistiku ætla menn að leggja á þetta?

Við lestur greinargerðarinnar með frumvarpinu vakna spurningar um hvort menn hafi hugsað þetta alveg til enda, þó ég efist ekki um að meiningin á bak við þetta sé einlæg og góð, en þetta velkist svolítið fyrir mér.

Ég held að hv. þm. Jóhann Ársælsson hafi kannski misskilið mig svolítið, því ég talaði um að hægt væri að beita takmörkunum á veiðarfæri en að við ættum að gera það meira með þeim hætti að við hreinlega beittum svæðalokunum. Það er alveg rétt að álagið sem hér er talað um, allt að 10%, getur gilt hvort sem menn veiða í einhvers konar sóknarstýrðu kerfi eða eftir kvótakerfi en ég hygg að það væri miklu vænlegri leið að við gengjum hreint til verks og bönnuðum notkun á dregnum veiðarfærum á þeim svæðum þar sem við teljum að náttúran sé svo viðkvæm á botninum að hún beri tjón af. Það væri miklu betri kostur.