131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórn fiskveiða.

239. mál
[17:11]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var eiginlega hálfundrandi á því hvað hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson var neikvæður gagnvart því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég veit ekki hvort hann hafi lesið það alveg í gegn og velt fyrir sér meiningunni á bak við þau orð sem þar standa. Eftir sem áður lýsti hann sig mótfallinn efni frumvarpsins. Það er náttúrlega yfirlýsing sem hann gefur og við flutningsmenn frumvarpsins verðum bara að hrista okkur eins og hundar á sundi með það að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson er ekki sammála því sem við leggjum fram.

Það hvarflar ekki að okkur flutningsmönnum að við búum yfir vitneskju almættisins eins og hv. þingmaður orðaði það og heldur ekki að þrátt fyrir auknar rannsóknir og betri rannsóknir á lífríki hafsins að við komum nokkurn tímann til með að búa yfir slíkri vitneskju. En ég heyrði ekki betur en hv. þingmaður væri sammála okkur um að nauðsynlegt væri að rannsaka betur áhrif veiðarfæra á bæði fiskstofna og vistsvæði hafsins og gott að hann sér einhverja ljósa punkta í frumvarpi okkar innan um hina.

Varðandi það að slæmt sé að bæta endalaust vont kerfi vil ég lýsa því yfir að ég tel betra að við bætum vont kerfi ef við getum, á meðan við höfum það, alla vega á meðan við bíðum eftir stóru byltingunni sem Frjálslyndi flokkurinn hefur boðað í sjávarútvegsmálum. Ég tel að við eigum að reyna að lappa upp á það kerfi sem við höfum og nota það á meðan.

Ég held að hv. þingmaður hafi ekki lesið frumvarpið í gegn vegna þess að verið er að tala um mismunandi áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsins t.d. Þá komum við inn á svæðalokanir sem mér virtist þingmaðurinn fagna að þyrfti að vera og í meira mæli en nú er. Vonandi les hann þetta betur í gegn í sjávarútvegsnefnd og afstaða hans breytist þá til málsins.