131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórn fiskveiða.

239. mál
[17:18]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að innan 1. gr. þessa frumvarps geti rúmast heimild til að fara út í einhvers konar tilraunaveiðar miðað við þær aðstæður sem ríktu í Arnarfirði vestur fyrir ekki mörgum mánuðum síðan, ég skal ekki segja til um það. Ég hygg þó reyndar að sjávarútvegsráðherra ráði yfir heimildum í dag til að geta farið út í slíkar æfingar án þess að þetta frumvarp þurfi að koma þar við sögu.

Hins vegar er það alveg rétt sem hv. þm. Jón Gunnarsson bendir á að sennilega verða örlög þessa frumvarps að fara til sjávarútvegsnefndar og síðan út til umsagnar og svo ekki söguna meir. Það er að sjálfsögðu vont mál og ekki til fyrirmyndar.

Fyrst við erum að ræða frumvarpið hlýt ég náttúrlega að lýsa eftir hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem ekki er viðstaddur, og líka eftir formanni sjávarútvegsnefndar, sem er heldur ekki viðstaddur þessar umræður, og vekja athygli á því að það er að sjálfsögðu afar slæmt að hvorugur þessara ágætu herramanna skuli sjá sér fært að vera viðstaddir umræðu þegar talað er um mál sem eiga að fara til sjávarútvegsnefndar til umfjöllunar þar.

Það verður sömuleiðis mjög fróðlegt að sjá þær umsagnir sem munu berast við frumvarpið frá hagsmunaaðilum, hvernig þeir bregðast við og hvaða rök þeir koma með, bæði með og sennilega einnig á móti frumvarpinu. En enn og aftur hlýtur það að teljast bagalegt að þeir sem ráða förinni í sjávarútvegsnefnd skuli ekki vera hér, að einum herramanni undanskildum reyndar, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem hefur fylgst með umræðunum og á hann að sjálfsögðu bæði hrós og þakkir skilið.