131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Stjórn fiskveiða.

239. mál
[17:21]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Örfá orð í lokin. Þetta mál hefur ekki áður verið flutt en það hefur oft verið talað um það hér í þinginu, í sjávarútvegsnefnd og milli aðila í sjávarútvegi hvort eðlilegt sé að allir fái veiðirétti úthlutað miðað við tonn, alveg sama hvaða fisk þeir veiða, hvort hann er stór eða smár, hvar þeir veiða hann, með hvaða veiðarfærum eða hvaða áhrif veiðarnar sem slíkar hafa á aðra fiskstofna eða lífríkið að öðru leyti í heild.

Það hlýtur að mínu viti að liggja í augum uppi að við eigum auðvitað að taka tillit til allra þessara þátta þegar við erum að stjórna fiskveiðum. En það hefur verið eins og eitur í beinum þeirra sem ráðið hafa ferðinni í sjávarútvegsmálum á undanförnum árum að ræða ívilnanir af nokkru tagi. Við höfum séð hvernig menn hafa brugðist við umræðunum um línuívilnun, sem hefur að vísu aðrar tilvísanir, meira byggðatengdar og annað slíkt en það sem hér er á ferðinni. Hér erum við eingöngu að tala um að menn taki afstöðu út frá áhrifunum sem talað er um í 1. gr. frumvarpsins. Ég tel fulla ástæðu til og vil benda á að ef lög af þessu tagi hefðu verið í gildi þann tíma sem kvótakerfið hefur verið í gangi hefði verið hægt að hafa veruleg áhrif á í hvaða átt veiðunum hefði verið beint, álaginu á hin ýmsu veiðarfæri, á stofna og á svæði.

Ég vil koma því að í lokin að alls ekki er um það að ræða að við séum með þessu sem hér er sett fram að leggjast gegn því að veiðarfæri séu notuð, það er af og frá. Við erum bara að halda því fram að taka eigi tillit til áhrifa veiðarfæranna þegar að úthlutun veiðiheimilda kemur og það sé ekki sama og eigi alls ekki að vera sama með hvaða hætti menn veiði fisk. Það eigi að umbuna þeim sem að öllum líkindum eru að veiða sem hagkvæmast gagnvart lífríkinu og gagnvart mengun og öllu því sem ætti auðvitað að taka tillit til og ég hef ekki tíma til að fara yfir og ætla ekki að reyna í þessari síðari ræðu minni.

Við viljum að farið verði varlega af stað. Við erum að tala um að hámarkið verði 10%, við erum að tala um að menn mundu nýta hámarkið gagnvart veiðum þar sem menn telja að upplýsingar liggi fyrir um að mestur skaði sé af gagnvart öðrum fiskstofnum eða lífríkinu, þar noti menn kannski hámarkið. En þeir sem tækju ákvarðanir um hve hátt hlutfall væri notað mundu horfa á heildarmyndina og raða niður veiðarfærunum í þá röð sem kemur út þegar menn bera saman þá þekkingu sem þeir hafa um áhrif veiðarfæranna. Þetta er í sjálfu sér ekki flókið mál að gera. Hins vegar er alveg augljóst að sú þekking getur aldrei orðið fullkomin og menn verða að feta sig áfram eftir þeim brautum sem fyrir hendi eru á hverjum tíma þegar þeir raða niður veiðarfærunum hvað varðar það álag sem á að vera á úthlutunina gagnvart einstökum veiðarfærum.

Það er ekki flókin framkvæmd sem þarna yrði á ferðinni. Margt hefur verið gert í sjávarútvegi sem er miklu flóknara en það sem hér er verið að tala um. En fyrst og fremst teljum við að þarna séu á ferðinni möguleikar, og það er einn partur af þessu máli sem væri kannski ástæða til að skoða alveg sérstaklega, það er hver ávinningurinn af svona stjórn gæti orðið. Ég er fyrir mitt leyti sannfærður um að ávinningurinn af því að stjórna veiðum með þeim hætti að sem mest af veiðunum fari fram með hinum hagkvæmustu veiðarfærum og með sem minnstum áhrifum á lífríkið í hafinu gæti orðið gríðarlegur. Við vitum í sjálfu sér því miður ekki hvað við höfum verið að skemma mikið í lífríkinu á undanförnum árum en við vitum að við höfum verið að skemma lífríkið. Sú skemmd hefur auðvitað komið niður á þeim afrakstri sem við hefðum getað haft af fiskstofnunum.

Erum við þá eitthvað að gera til þess að koma í veg fyrir það? Já, við erum auðvitað að gera ýmislegt. Það eru fjölmargar aðferðir notaðar til að stýra fiskveiðum á Íslandi og þær eru langflestar fólgnar í svæðalokunum, veiðarfærastýringum og öðru því um líku. En ef við kæmum til viðbótar með þær aðferðir sem verið er að tala um í frumvarpinu tel ég að okkur mundi miða miklu hraðar áfram en okkur hefur gert fram að þessu. Þetta yrði keyri á stjórnvöld til að rannsaka og setja fjármuni í rannsóknir á þeim þáttum sem upplýsingar þurfa að liggja fyrir um til að eðlilegt tillit sé tekið til þess hvernig menn ganga um veiðislóðina.

Það eru ekki rök í málinu sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson var með áðan, að hin leiðin sé bara sú að banna veiðarfæri, að ekki megi halda áfram að veiða humar í troll af því að það væri hugsanlega hagkvæmara að nýta gildrur. Nú er ég ekki að halda því fram að ekki geti komið að því að menn tækju þá ákvörðun að banna hreinlega veiðar á humri í troll. En á meðan við erum ekki komin lengra en við erum nú þegar komin finnst mér að nóg væri að menn hefðu áhrif á það með því að álagið á trollveiðarnar væru þá þessi 10% eða hluti af þeirri prósentu og að þeir sem vildu veiðar í gildrur fengju þá umbun fyrir það. Það hefði verið hægt að koma á gildruveiðum á undanförnum árum með því hreinlega að koma til móts við þá sem mundu leggja í þann kostnað af því að þeir fengju umbun fyrir það.

Í dag er engin hvatning til þess að hætta veiðum í troll. Það út af fyrir sig, held ég, segir sína sögu um hvað mikil þörf er á að stjórnkerfið sjálft umbuni þeim sem ganga vel um veiðislóðina. Annars halda menn bara áfram að nýta með þeim hætti sem fyrir er af því að þeir hafa aðeins sinn kvóta og þeir sækja hann með þeirri aðferð sem tiltækust er, búið. Þeim er ekki gert það auðveldara ef þeir leggja í kostnað við að nota veiðarfæri sem eru vistvæn og það eru fjölmörg veiðarfæri notuð hér sem er í raun og veru gjörsamlega ótækt að séu notaðar við veiðar.

Ég nefndi trollveiðar á humri. Hvernig halda menn að veiðar með þessum skúffum eða toggræjum sem notaðar eru við veiðar á hörpudiski fari með slóðina? Hvernig halda menn að veiðarnar á ígulkerjum hafi farið með þá slóð sem þau hafa verið veidd á á undanförnum árum? Allt eru þetta einhvers konar skurðgröfutæki sem eru notuð á botninum.

Ef einhver vildi eyða fjármunum í að veiða í veiðarfæri sem væru vistvænni og þó að það kostaði eitthvað meiri fjárútlát, bæði í tilraunum og hreinlegri veiðum, þá er það ekki hægt vegna þess að ekki er hægt að koma til móts við viðkomandi og hann fær ekki að njóta þess að minna verður ónýtt af því sem hann er að veiða. Það er t.d. viðurkennt að henda má öllum ónýtum ígulkerjum. Ef einhver væri að vinna með miklu betri veiðarfærum og skemmdi engin ígulker, af hverju ætti hann ekki að fá að njóta þess?

Þetta er að mínu viti málefni sem hefur verið látið liggja allt of lengi í láginni og er kominn tími til að taka á því. Ég ætla sannarlega að vona að það verði gert. Ég á sæti í sjávarútvegsnefnd og vonast til að fá tækifæri til þess að fjalla um þetta mál þar. En ég ætla að vona, og það skulu vera mín lokaorð, að þó að umsagnir hagsmunaaðila sem tíðkast hefur að láta gefa álit sitt á tillögum eins og þessum verði ekki endilega jákvæðar, þá verði þær skoðaðar í ljósi þeirra hagsmuna sem þeir eru að verja sem eru tonnin sem þeir fá úthlutað en ekki hvernig lífríkið í heild fer út úr þeirri nýtingu sem er á hverjum tíma.