131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Sala áfengis og tóbaks.

241. mál
[17:32]

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Mál þetta er endurflutt, það var lagt fram á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu.

Í stuttu máli er hér um að ræða að lagt er til að einkasala Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins með annað áfengi en sterkt áfengi verði aflögð en með sterku áfengi er yfirleitt átt við áfengi með meiri vínandastyrk en 22%.

Eins og við þekkjum er hér ekki um róttækt mál að ræða þar sem fleiri aðilar en ÁTVR eru í raun farnir að versla með allt áfengi, ekki bara létt áfengi og bjór, en það er þó fremur bundið við landsvæði og kem ég að því á eftir.

Skoðum aðeins hver er helsta röksemdin fyrir ríkiseinkasölu. Við vitum að ríkið og sveitarfélögin hafa verið að draga sig út úr atvinnurekstri, sérstaklega verslunarrekstri, á undanförnum árum og er það algjör undantekning ef ríkið eða sveitarfélög stunda verslunarrekstur. Á það ekki bara við á Íslandi heldur í þeim löndum sem við berum okkur saman við alla jafna. Í ársskýrslu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins segir þegar verið er að reifa helstu röksemdir: „Forvarnahlutverk ÁTVR felst nú fyrst og fremst í því að fylgja eftir lagaákvæðum um lágmarksaldur þeirra sem kaupa áfengi“. Þá segir í sömu skýrslu að stefnan sé að nýta áhrifamátt fyrirtækisins til þess að, eins og það er orðað, með leyfi forseta: „hlúa að vínmenningu í landinu og miðla upplýsingum um afleiðingar á misnotkun áfengis“.

Það verður að segjast eins og er að þetta eru afskaplega haldlítil rök til að viðhalda ríkiseinkasölu með vörur. Á það skal bent að nú er einkaaðilum treyst til að framfylgja reglum um lágmarksaldur til að kaupa tóbak. Er stíft eftirlit með því eins og umræða var hér um fyrir nokkrum missirum og ég veit ekki betur en að prýðilega hafi gengið að koma í veg fyrir að fólk undir aldri væri að kaupa sér tóbak. Einnig er það svo að á veitingahúsum er einkaaðilum treyst til að selja áfengi og viðhalda reglum um lágmarksaldur.

Ef við förum aðeins í rökin með því að breyta þessum lagaákvæðum og færa þetta í nútímahorf þá má í fyrsta lagi nefna að einkaaðilar sinna þessum verslunarrekstri víðs vegar um landið. Það má í rauninni segja að það sé bara á höfuðborgarsvæðinu sem ríkið er algjörlega með þessa verslun, ef undan er skilin ein verslun í Kópavogi sem rekin er af einkaaðila. Ef menn ferðast um landið komast þeir að því að áfengiseinkasölur eru víðs vegar í hinum og þessum verslunum, m.a. bensínstöðum og söluturnum, matvöruverslunum og hinum ýmsu verslunum sem ÁTVR hefur samið við. Í rauninni er það afskaplega lítil breyting ef frumvarpið næði fram að ganga. Það eina sem breyttist er að það væri samræmi á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar ef svo má að orði komast.

Í öðru lagi er það svo að þó að þjónusta ÁTVR hafi batnað mjög mikið á undanförnum árum, sölustöðum hafi fjölgað og ekki séu sömu slagsmál og voru fyrir nokkrum árum þegar verslunarmiðstöðvar toguðust á um þessa þjónustu og sömuleiðis byggðarlög, þá er samt sem áður enn þá mismunun á milli þessara aðila, þ.e. að það er að sjálfsögðu mismunur á milli verslanamiðstöðva eða byggðarlaga hvort þessi vara er þar á boðstólum. Við þekkjum það að byggðarlög sem eru t.d. að reyna að stíla inn á þjónustu við ferðamenn hafa eðli málsins samkvæmt sótt það mjög stíft að fá áfengissölu því hún er einn af þeim þáttum sem menn þurfa að bjóða upp á ef þeir ætla að standast samkeppni um verslun við ferðamenn og ég þarf ekki að fara yfir mikilvægi ferðamennsku fyrir landið allt og sérstaklega landsbyggðina.

Í þriðja lagi má nefna kostnaðinn af versluninni. Það er ekkert sem bendir til annars en að einkaaðilar geti gert þetta, a.m.k. ekki verr en ríkið og er ég þá ekki að kasta neinni rýrð á það ágæta fólk sem starfar hjá ÁTVR, síður en svo, ég veit til þess að það veitir góða þjónustu og hefur fengið viðurkenningar fyrir góða starfsemi.

Ekki er hægt að horfa fram hjá því að eignir þessarar ríkisverslunar eru núna alls 3,2 milljarðar miðað við ársreikning árið 2002. Það er því talsvert mikið fé bundið í þeirri verslun. Ég vil þó taka fram að ekki er verið að leggja til að leggja niður ÁTVR með þessu máli en það væri augljóst að ef af því yrði þyrfti ÁTVR kannski ekki að vera á jafnmörgum stöðum og vera bundið í eins miklum verslunum og staðan er núna.

Þessu máli hefur oft verið hreyft hér á þinginu. Ég var 1. flutningsmaður þingsályktunartillögu um afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis á 123. löggjafarþingi og Vilhjálmur Egilsson lagði ítrekað fram lagafrumvarp um breytingu á einkasölu ríkisins á áfengi en það náði ekki fram að ganga.

Það er fróðlegt að skoða þetta með tilliti til sögunnar því að Áfengisverslun ríkisins, fyrirrennari Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, var sett á laggirnar árið 1922 þegar bannlögunum var aflétt, og tóbakseinkasalan var stofnuð í byrjun fjórða áratugarins þegar menn voru gjarnir á að setja einokunarlög og hin ýmsu höft í íslenskri löggjöf. Má þar t.d. nefna einkaleyfi á síldarsölu, einkasölu á viðtækjum, einkarétt til útvarpsreksturs og seinna komu ýmis lög og höft eins og einokun á sölu bifreiða, símtækja og annars slíks. Fyrir einungis 15 árum var ríkið með einokun á því að flytja inn eldspýtur. Þessu hefur sem betur fer öllu verið aflétt en við sitjum enn þá eftir með ríkiseinkasölu á þessari vöru.

Rétt er að taka fram að með þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir geti veitt einstaklingum og lögaðilum leyfi til smásöluverslunar með léttvín og bjór. Samkvæmt gildandi lögum veita sveitarstjórnir á hverjum stað smásöluleyfi fyrir áfengi og verður það fyrirkomulag í sjálfu sér óbreytt þrátt fyrir að fleiri endurseljendur komi nú til greina.

Síðan eru hins vegar ákveðnar takmarkanir, sem ég ætla ekki að rekja hér, fyrir veitingu smásöluleyfis. Það er því alls ekki svo að hér sé öllum verslunum leyft að selja þessa vöru ef málið nær fram að ganga. Hér er einkum miðað við það að verslanir eins og söluturnar, myndbandaleigur og söluvagnar geti ekki selt áfengi í smásölu.

Í greinargerð með frumvarpinu er líka farið yfir að það sé skoðun flutningsmanna að skoða eigi áfengisgjald og hvort ekki væri rétt að lækka það í þremur áföngum allt að 50% til ársins 2007 og er þar samanburður á milli landa hvað þetta varðar. Við erum með mjög hátt áfengisgjald miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við, við erum með lítillega lægra gjald en Noregur, en mun hærra en önnur lönd sem við berum okkur saman við. Ef við lækkuðum þetta gjald um 50% værum við samt sem áður á svipuðu róli og Svíar og mælir nú sá sem hér stendur ekki með því að við færum okkur í mörgum málum í átt til Svíþjóðar. Ég held þó að í þessu máli sé það undantekningin sem sannar regluna, en málið sem slíkt fjallar ekki um það.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa langa framsögu um þetta einfalda mál en vil endurtaka að hér er ekki um róttæka breytingu að ræða. Ég ber fulla virðingu fyrir því fólki sem almennt hefur áhyggjur og vill berjast gegn áfengisbölinu sem svo er kallað, ég tala nú ekki um vímuefnavandanum. Ég tel að við eigum að gera það með öllum tiltækum ráðum. Ég tel hins vegar að þetta mál snúist fyrst og fremst um það að færa verslun með þessa vöru í nútímalegt horf í samræmi við það sem gerist annars staðar. Það er enginn vafi í mínum huga að þetta er eitthvað sem mun gerast á Íslandi eins og í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það eru engin rök fyrir því að við höfum þetta með allt öðrum hætti en önnur lönd sem við heimsækjum reglulega, ferðumst um og förum í nám og annað slík. Það eru engar slíkar aðstæður á Íslandi sem bjóða upp á að við höfum þetta með allt öðrum hætti.

Sem betur fer er það svo að meðferð fólks með áfengi hefur lagast á undanförnum árum og í rauninni með ákveðnu frjálsræði, bæði með því að hér var leyfður bjór og síðan hefur verið farið út í það að fjölga sölustöðum ÁTVR og bæta þá þjónustu sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða. Það er að mestu leyti liðin tíð þó svo að við sjáum það því miður enn þá að menn neyti áfengis einungis með það að markmiði að finna áhrif og noti þá sterk vín sem þeir neyta fyrst og fremst um helgar. Sem betur fer og allar tölur sýna það hefur neyslan farið meira út í það að fólk drekki léttvín og bjór og er farið að njóta þess með góðum mat. Við sjáum líka í ýmsum blöðum og fjölmiðlum að verið er að fjalla um þetta efni faglega og með góðum hætti. Það er bara í samræmi við það sem gerist annars staðar og er góð þróun sem við skulum ekki tala gegn þó svo að sá sem hér stendur og ég held við öll viðurkennum að við sjáum líka slæmar afleiðingar áfengisneyslu og við skulum ekki vanmeta það heldur berjast gegn því með oddi og egg.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði vísað til allsherjarnefndar.