131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Sala áfengis og tóbaks.

241. mál
[17:54]

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir góða ræðu. Hann fór yfir ansi marga þætti sem skipta máli og ég þakka honum fyrir stuðninginn sem kemur að vísu ekki á óvart þar sem hann er einn af flutningsmönnum frumvarpsins og kom að því að undirbúa þetta mál.

Hins vegar fannst mér hann koma inn á mörg athyglisverð atriði. Eitt sem hann nefndi, virðulegi forseti, var smáverslanirnar. Ég gengst alveg við því að ég er mikill áhugamaður um að hér verði gott framboð af gæðavínum. En ég vona að við munum ekki sjá þá þróun, hvort sem þetta frumvarp verður samþykkt eða ekki, að hér yrði einungis um aukið magn að ræða, ódýrar tegundir sem hægt væri að selja í miklu magni í verslunum heldur vildi ég að til yrðu sérverslanir með gott úrval og þar sem meira yrði lagt upp úr gæðum en magni. En ég vil nota tækifærið og þakka þingmanninum fyrir að velta þessum þætti upp sem er mjög mikilvægt.

Hv. þingmaður nefndi einnig skoðanakannanir. Þær sýna líka að því yngra sem fólkið er, og ég held að þar sé bein tenging við að fólk hafi kynnst fyrirkomulaginu annars staðar, því meira fylgi er við þetta mál. Það vekur líka athygli, þegar maður skoðar flutningsmenn frumvarpsins, að af 15 flutningsmönnum þess eru 10 sem ég held að ég geti skilgreint sem unga þingmenn, ef við skilgreinum þá unga sem eru yngri en fertugir. Síðan eru þar fimm að auki sem eru ungir í anda og er það vel.