131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Sala áfengis og tóbaks.

241. mál
[17:59]

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ekkert í hv. þingmanni Sigurði Kára Kristjánssyni að vilja ekki mynda skjallbandalag í þingsal. Ég er algjörlega til í það og reiðubúinn til þess verks. Mér finnst þetta með betri umræðum sem verið hafa í þingsalnum lengi og spurningin hve lengi við eigum að halda áfram. Það er augljóslega góð sátt í þingsalnum um málið og menn ræða það út frá réttum forsendum.

Í þinginu tala menn oft um allt það sem farið hafi á verri veg en vert er að benda á að við höfum séð mjög jákvæða þróun — ég held að menn geti ekki haldið öðru fram — í matarmenningu Íslendinga. Við sjáum á Íslandi frábæra veitingastaði sem jafnast á við það besta sem gerist, hvað sem við berum okkur saman við. Ég hef margreynt það á eigin skinni þar sem ég hef talsvert ferðast um heiminn og hef endrum og eins haft tækifæri til að fara á þá veitingastaði sem hér eru, þá sérstaklega í höfuðborginni þótt að sjálfsögðu séu til mjög góðir staðir annars staðar.

Hv. þingmaður nefndi einmitt þessar litlu verslanir og m.a. eina af uppáhaldsverslunum mínum á Skólavörðustígnum, Ostabúðina, sem er dæmi um verslun með mikil gæði. Menn hafa t.d. talað um Skólavörðustíginn sem ákveðna sælkeragötu. Eins og hv. þingmaður nefndi fara menn í slíkar verslanir, fá sér hágæðamatvöru og fá síðan leiðbeiningar og þurfa síðan að keyra borgarhluta á milli til að loka máltíðinni. Ég vona sannarlega og er reyndar sannfærður um það, að þegar þetta mál nær fram að ganga þurfi menn ekki að standa í slíku og því eru komin umhverfisrök fyrir málinu ofan á allt annað.