131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Athugasemd.

[10:35]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nýr fréttastjóri mætti til starfa á Ríkisútvarpinu í morgun. Hann hóf störf með því að halda fund með starfsmönnum og lýsa því yfir að hann væri kominn til starfa. Hann sagði líka að hann mundi ræða við hvern og einn starfsmann og taka til þess komandi vikur og þeir sem vilji geti hætt.

Það sem er merkilegt við fundinn er að hinn nýi fréttastjóri staðfesti orðróm eða fréttir sem höfðu borist um að hann hefði heimild til að ráða með sér starfsmenn inn á Ríkisútvarpið við komuna þangað. Þá vaknar spurningin: Hver heimilar að nýr fréttastjóri fái að ráða með sér fólk til að gera honum þetta auðveldara? Er þetta eins konar yfirtaka á fréttastofunni? Hver heimilar? Er það hæstv. menntamálaráðherra? Er það Framsóknarflokkurinn? Um þetta verðum við að fá upplýsingar vegna þess að þetta eru staðfestar fréttir sem við munum væntanlega fá að heyra meira um á þessum morgni.

Málið allt hefur haft undarlegan aðdraganda en það sem er að gerast í dag er ef til vill það versta af öllu.