131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Athugasemd.

[10:37]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Alþjóðasamband blaðamanna er fyrirbæri sem er ekki mikið í fréttum. Það kýs því aðeins að vera í fréttum að vegið sé að ritfrelsi eða þá að lífi eða limum blaðamanna um heiminn, og þá helst þar sem þeir eru við hættuleg störf, í styrjaldarástandi, í uppreisnarástandi í ríkjum eða í einræðisríkjum þar sem mikil hætta er á ferðum. Þá mótmælir Alþjóðasamband blaðamanna. Þess vegna er afar sérstætt og afar athyglisvert að Alþjóðasamband blaðamanna hefur mótmælt ráðningu nýs fréttastjóra á fréttastofu útvarps.

Þegar það er tengt þeirri atkvæðagreiðslu sem fram fór í gær á Ríkisútvarpinu þar sem um það bil 95% starfsmanna Ríkisútvarpsins lýstu vantrausti á útvarpsstjóra vegna þess gernings sem hann var knúinn til af stjórnarflokkunum á þinginu í gegnum fulltrúa sína í útvarpsráði, þegar þetta er tengt saman hefur dregist upp alvarlegri mynd af pólitískri valdbeitingu á því sviði þar sem hún á síst heima en áður hefur komið upp á fullveldis- og lýðræðistímum í Íslandssögunni. Ég óska eftir því að þeir taki ábyrgð sem eiga að taka hana. Ég óska eftir því að stjórnarflokkarnir snúi við í þessu dæmi og ég óska eftir því að Markús Örn Antonsson verði látinn skilja það úr þessum stól að hann hefur aðeins tvo kosti í stöðunni: Að breyta ákvörðun sinni eða víkja.