131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Athugasemd.

[10:43]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðunni hlýtur að vakna spurning um hvers vegna nauðsynlegt er að brjóta niður fréttastofu Ríkisútvarpsins, virtustu fréttastofu landsins. Hvers vegna telja hinir pólitísku valdhafar nauðsynlegt að veitast á þennan hátt að virtustu fréttastofu landsins sem hefur markað leiðina undanfarin 70 ár? Hvernig má það vera að stjórnmálaflokkur sem hugsanlega mælist með 5%–10% fylgi telur sig eiga fréttastjórastöðu á slíkri stofnun? Hvernig má það vera? Hvernig má það vera að flokkur með þennan litla stuðning í samfélaginu skuli hegða sér á þann hátt sem raun ber vitni? Í hvers konar samfélagi búum við orðið? Samfélag sem vill kenna sig við lýðræði, sem vill kenna sig við frelsi og tjáningarfrelsi. Hvað í veröldinni er að gerast? Og er það rétt sem hér hefur verið sagt að sá fréttastjóri sem nú er mættur til starfa hafi umboð og heimildir frá stjórnvöldum til að taka fólk með sér inn svo yfirtakan takist? Hvers konar hugmyndir eru að fá brautargengi í samfélaginu okkar?

Virðulegi forseti. Þetta er með hreinum ólíkindum og ég vonast til þess að eitthvað af því sem hér hefur verið sagt eigi ekki við rök að styðjast, því svo alvarlegt er ástandið ef rétt reynist að við munum eiga í miklum erfiðleikum með að réttlæta það á alþjóðavettvangi í hvers konar samfélagi við búum.