131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[10:58]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að það er nauðsynlegt að þessi umræða fari fram og ég lýsi ánægju með það sem hæstv. forseti sagði hér rétt áðan, að forseti líti svo á að þessi beiðni sé virk og það verði orðið við henni svo fljótt sem auðið er.

Ég vil benda fólki á að í þingskapalögum er gert ráð fyrir því að hægt sé að taka umræður um mikilvæg og aðkallandi mál á dagskrá fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Um það vitnar 2. mgr. 50. gr. Sömuleiðis segir í 1. mgr. 50. gr., sem gefur til kynna hvernig þingskapalögin eru hugsuð að þessu leyti, með leyfi forseta:

„Í allt að hálftíma á venjulegum fundartíma geta þingmenn fengið tekið fyrir mál utan dagskrár, hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar til ráðherra. Skal þá þingmaður bera fram við forseta ósk sína hér um eigi síðar en tveimur klukkustundum áður en þingfundur hefst. Í upphafi þingfundar skal forseti tilkynna hvaða mál fyrirhugað er að taka til umræðu utan dagskrár.“

Það er því greinilegt að þingskapalögin eru hugsuð um fyrirvaralitla eða fyrirvaralausa umræðu. Hér eru alvarleg mál á ferðinni þar sem einn af máttarstólpum lýðræðislegrar umræðu í landinu er undir árás. Við verðum að fá þessa umræðu, ef ekki við hæstv. menntamálaráðherra sem búið er að tilkynna að sé erlendis þá við starfandi menntamálaráðherra sem er hæstv. sjávarútvegsráðherra, Árni Mathiesen. Ég krefst þess að þessi umræða fari fram síðar í dag.

Ef hæstv. starfandi menntamálaráðherra treystir sér ekki til að taka umræðuna er eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra taki hana. Ég skal geta þess hér, af því að ég hef getið um það að ég óskaði eftir þessari umræðu í gærkvöldi, að ég sendi öllum þessum ráðherrum þá beiðni mína sem fór til forseta Alþingis. Hún var send hæstv. menntamálaráðherra, starfandi menntamálaráðherra og forsætisráðherra, öllum þingflokksformönnum, svo að menn hafa haft nægan tíma til að búa sig undir hana. Það er alveg óhjákvæmilegt að þessi umræða fari fram svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en í dag.