131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[11:16]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Á fundi þingflokksformanna nokkrum mínútum áður en þingfundurinn hófst klukkan hálfellefu kom fram sú ósk frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að fram færi utandagskrárumræða um málefni Ríkisútvarpsins. Það var í fyrsta skipti sem ég heyrði af þessu. Ég las tölvupóstinn minn klukkan tíu, áður en ég kom til fundarins, og þar var engin beiðni og engin viðvörun um það til mín sem þingflokksformanns.

Jafnframt kom fram á fundinum að hv. þingflokksformaður, Magnús Stefánsson, hafði ekki heldur heyrt af beiðni hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. En grunnurinn að því að við getum átt hér lýðræðislega umræðu um þessi mál og vel undirbúna og ígrundaða er að búið sé að tilkynna það til allra hlutaðeigandi aðila.

Vísað hefur verið til þess að ráðherrar eigi að koma til umræðunnar og það er auðvitað skilyrði að tryggt sé að þeir viti af því að búið sé að biðja um utandagskrárumræðu. Þær hefðir hafa skapast í þinginu að öllum sé ljóst að slík umræða fari fram, ekki síst ráðherrum og þingflokksformönnum, þannig að umræðan geti orðið skilvirk og ég tel mjög mikilsvert að menn haldi í þær hefðir.

Hins vegar hefur liðurinn Athugasemdir um störf þingsins, verið notaður í sama tilgangi í upphafi þingfunda. Það var gert nú og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði grein fyrir því að hún mundi ræða þessi mál undir þeim lið og ég hef ekkert við það að athuga.

En, hæstv. forseti, að halda umræðunni síðan gangandi undir liðnum Um fundarstjórn forseta er komið dálítið á skjön við lýðræðislega umræðu í þinginu, ef menn vilja kalla það svo. (Gripið fram í: Þú ert að því.) Ég ræði hér fundarstjórn forseta og hvað hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni hefur liðist í umræðum um þann lið er náttúrlega til vansa fyrir okkur öll. Nú er ósk um umræðu komin fram. Það verður þingflokksformannafundur á eftir, eins og fram hefur komið, og þá verða ræddar þær óskir um utandagskrárumræður sem borist hafa. En að setja upp leikrit af þessu tagi er okkur ekki til framdráttar í þeirri lýðræðislegu umræðu sem við viljum hafa í (KolH: En ef við … til baka.) þingsal. Við vitum auðvitað að hv. þingmaður er góður leikstjóri og (Forseti hringir.) á auðvitað að hafa þann hátt á í leikhúsum sínum en ekki hér. (Gripið fram í: Þetta er grafalvarlegt mál.)