131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[11:20]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Forseti dregur réttilega athygli á ábyrgð sinni við stjórn fundarins. Forseti er ábyrgur fyrir framvindu dagskrárinnar í dag.

Borin hefur verið fram krafa um að tekin verði tafarlaust eða með lágmarksfyrirvara á dagskrá umræða um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin hjá Ríkisútvarpinu. Sú beiðni var send í gærkvöldi og var að ég best veit send á alla þingflokksformenn, á a.m.k. þrjá ráðherra og alla vega einhverjir þeirra ættu að kunna á tölvur. Það er því engin afsökun að beiðnin hafi ekki verið send út. Það hafa meira að segja komið fram tilmæli um að þingmenn sendi beiðnir í tölvupósti þannig að hægt sé að sjá tímasetninguna.

Staða málsins er svo grafalvarleg að hún þolir ekki bið og þess vegna stendur sú beiðni á forseta að hann svari því áður en næsta mál verður tekið á dagskrá hvort umræðan geti farið fram eftir hádegi eins og beðið er um, hvort sem ráðherra verði við eða ekki. Við krefjumst svara áður en næsta mál er tekið á dagskrá. Forseti er ábyrgur fyrir dagskránni og ef hann getur ekki svarað því á stundinni gerir hann bara hlé, ef ég má gefa forseta ráð til þess að komast fram úr fundarstjórninni, og að tímasetning fyrir umræðuna verði ákveðin í dag, herra forseti.