131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[11:21]

Forseti (Guðmundur Árni Stefánsson):

Vegna orða hv. þingmanns vona ég satt að segja að hann hafi lagt við hlustir í umræðunni um fundarstjórn forseta. Það hefur ítrekað komið fram að það er vilji forseta að finna svigrúm í dagskrá dagsins, það hefur legið fyrir í allan morgun, vegna beiðninnar sem fram komin er.

Ég vil enn fremur rifja það upp vegna orða hv. þingmanns þess efnis að umræðan fari fram hvort sem atbeini ráðherra verði til staðar eður ei, að í upphafi þingfundar fór fram 23 mínútna umræða um það málefni sem hér um ræðir, þ.e. málefni Ríkisútvarpsins, að vísu án atbeina framkvæmdarvaldsins.

Það er líka rétt að minna á það að sú umræða sem fram hefur farið um fundarstjórn forseta á auðvitað samkvæmt þingsköpum að fara fram undir heitinu Athugasemdir um störf þingsins því hér er verið að fjalla um störf þingsins. Hins vegar hefur það verið að ráði og í góðu samkomulagi forseta, þingflokksformanna og þingheims alls, að ég hygg, að víkka út þá þröngu skilgreiningu sem er að finna í þingsköpum, í ákvæðinu um störf þingsins, og gefa þar tóm og ráðrúm til að taka upp pólitísk dægurmál dagsins. Það var gert svikalaust í morgun.

Enn og aftur áréttar forseti að það er fullur vilji til þess að reyna að koma til móts við þá beiðni sem komin er fram. Þess vegna verður haldinn fundur, sem margnefndur hefur verið, klukkan 1.15 í dag.