131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Fjárhagslegar tryggingaráðstafanir.

667. mál
[11:26]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Frumvarpið var samið í samráði og samvinnu við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Samtök banka og verðbréfafyrirtækja og Seðlabanka Íslands. Er markmið þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

Er nú til umfjöllunar í utanríkismálanefnd þingsályktunartillaga um að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 106/2004 frá 9. júlí 2004 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn fyrrgreinda tilskipun. Í tilskipuninni er kveðið á um samræmdar reglur um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir en slíkar ráðstafanir felast í tvíhliða samningum um veðsetningu og framsal verðbréfa og reiðufjár til tryggingar fjárhagslegum skuldbindingum. Tilskipuninni er ætlað að ryðja úr vegi hindrunum fyrir skilvirkri nýtingu fjárhagslegra tryggingarráðstafana á fjármálamörkuðum í Evrópu.

Í greinargerð með frumvarpinu er gerð ítarleg grein fyrir efni tilskipunarinnar. Sama gildir um athugasemdir með einstökum greinum frumvarpsins. Mun ég því láta nægja að tæpa á helstu atriðum frumvarpsins.

Í frumvarpinu er í samræmi við efnisákvæði tilskipunarinnar gert ráð fyrir sérreglum um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Gert er ráð fyrir að aðilar að slíkum samningum séu einkum stofnanir á fjármálamarkaði. Þó geti aðrir lögaðilar átt aðild að slíkum samningum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. 6. tölulið 1. gr. frumvarpsins. Sérreglurnar lúta einkum að formi þessara samninga og aðferðum við fullnustu samningsskuldbindinganna. Settar verði sérreglur í gjaldþrotarétti sem veita samningunum sérstaka réttarvernd hvað varðar greiðslustöðvun, nauðasamninga, samningsumleitanir og gjaldþrotaskipti, nánar tiltekið sérreglur um áhrif upphafs skuldaskila eða upphafsdags ýmissa aðgerða til að koma fram nýskipan fjármála, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Er þá kröfum samkvæmt samningi um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir í ákveðnum tilvikum haldið utan við fyrrnefndar ráðstafanir til endurskipulagningar fjárhags og slitameðferð.

Hvað varðar form samninganna er gert ráð fyrir í 4. gr. frumvarpsins að samningur um fjárhagslega tryggingarráðstöfun skuli gerður skriflega eða með rafrænum hætti þannig að sanna megi stofnun tryggingarráðstöfunarinnar með lögformlegum hætti. Einnig skuli tilgreina til hvaða skuldbindinga og fjárhagslegra trygginga samningurinn nái. Í athugasemdum með ákvæðinu eru þessi atriði útskýrð nánar.

Ég vil í þessu sambandi sérstaklega benda á athugasemdir við 4. og 6. gr. frumvarpsins, þ.e. að gert ráð fyrir því að í samningum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir verði jafnan vísað til laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Um þetta atriði hafa eftir samningu frumvarpsins spunnist nokkrar umræður milli þeirra aðila sem komu að gerð þess. Hafa Samtök banka og verðbréfafyrirtækja bent á að óheimilt sé að gera þá formkröfu til þessara samninga að í þeim sé vísað til íslenskra laga um þá. Þetta skiptir t.d. máli þegar gerðir eru samningar við erlendar fjármálastofnanir.

Virðulegi forseti. Öllum þingmönnum er ljóst að ummæli í greinargerð koma ekki í stað settra laga og gera ákvæði frumvarpsins ekki þá formkröfu til samninga um fjárhagslegar ráðstafanir að í þeim sé vísað til laganna. Vissulega er æskilegt að vísað sé til laganna, sé á annað borð ætlunin að byggja rétt á þeim, en ljóst er að það getur verið vandkvæðum bundið, svo sem þegar annar samningsaðila er erlendur. Samningur heldur vissulega gildi sínu þótt ekki sé vísað til íslenskra laga í honum, hann nýtur sérreglna laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði laganna. Samningur verður virtur á grundvelli laganna þótt ekki sé vísað til þeirra. Sama gildir um samning sem gerður er yfir landamæri þar sem vísað er til erlendra laga sem ætlað er að innleiða tilskipunina.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr. Ég treysti því að nefndin fari ítarlega yfir þetta mál og kynni sér öll gögn þess. Hér er um nýmæli að ræða sem sjálfsagt er að ræða nákvæmlega þannig að menn átti sig á því hvað felst í þeim lagaákvæðum sem hér eru kynnt.