131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Fjárhagslegar tryggingaráðstafanir.

667. mál
[11:38]

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég biðst afsökunar á að þreyta forseta með hinum sífelldu umræðum um fundarstjórn en ekki verður við öllu gert. Það hefur nú gerst í því máli sem við ræddum áðan að hingað hafa komið í eigin persónu flestallir fréttamenn Ríkisútvarpsins og afhent forseta Alþingis og öðrum alþingismönnum plagg. (Forseti hringir.)

(Forseti (GÁS): Forseti vill geta þess að við ræðum hér fyrsta dagskrármálið. Hvað er það í fundarstjórn forseta sem hv. þingmaður gerir athugasemdir við í því sambandi?)

Ég skal gera þá athugasemd. Ég tel að forseti eigi nú strax að gera hlé á fundinum og beita sér fyrir því að sá fundur með þingflokksformönnum verði haldinn sem áður var rætt um. Ég tel að þetta plagg, sem ég óska eftir að fá að lesa á eftir, með leyfi forseta, sé þess eðlis að það geri það mál miklu alvarlegra sem við ræddum um áðan. Og vegna þess að forsætisráðherra sjálfur hæstv. situr frammi á kaffistofu og hefur gert í allan morgun þá er upplagt að fá hann til að vera til andsvara við þeirri beiðni og því ákalli (Forseti hringir.) til alþingismanna — ég bið forseta að vera rólegan eitt augnablik — (Forseti hringir.) sem er þannig, með leyfi forseta:

(Forseti (GÁS): Forseti er alveg sallarólegur en vill minna hv. þingmann á að hann er ræða fundarstjórn forseta undir fyrsta dagskrármálinu og endurtekur spurningu sína: Hvað er það í fundarstjórn forseta sem hv. þingmaður gerir athugasemdir við í því sambandi? Forseti hefur hlýtt á umræður um það málefni sem hv. þingmaður ræðir hér og það liggur fyrir að fundað verður um það mál klukkan eitt, eftir einn klukkutíma og korter. Þannig er það mál og engin breyting á því.)

Forseti. Ég óska ósköp einfaldlega eftir því, í tilefni af þessum umræðum um fundarstjórn forseta og það sem á eftir að gerast hér í dag í þeim efnum, um fundarstjórn forseta og störf þingsins almennt undir hans handleiðslu, að fá að lesa þennan texta sem ég tel að breyti málinu verulega og geri það jafnvel miklu alvarlegra en áður var talið. Ég óska ósköp einfaldlega eftir að fá að lesa það og væri ánægður með ef ég fengi að gera það. Þetta er stuttur texti.

(Forseti (GÁS): Forseti ætlar að hér sé farið mjög á svig við þingsköp, að koma upp undir liðnum um fundarstjórn forseta, við fyrsta lið á dagskrá fundarins og ræða fundarstjórn forseta um alls óskylt mál. Ég vil biðja hv. þingmann að taka mið af því.)

Forseti. Ég hlíti að sjálfsögðu og hef alltaf gert því sem forseti ákveður í þessu efni. En ég bið forseta þá hér með að reyna að flýta fundi eins og hægt er því að það erindi sem okkur hefur borist frá fréttamönnum Ríkisútvarpsins er þess eðlis að ég tel að við eigum að taka það til umræðu á þinginu eins fljótt og verða má og við eigum að einbeita okkur að því máli í dag, þennan undarlega 1. apríl, sem aldrei þessu vant varðar hinar sönnu fréttir af málefnum dagsins. Ég bið forseta að beita sér fyrir því að þetta sé hægt að gera og fresta því máli sem hér er til umræðu.

(Forseti (GÁS): Forseti hefur hlýtt á hv. þingmann og mun taka mið af hans beiðni í því sambandi.)