131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[13:34]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að fá að tilkynna undir þessum dagskrárlið, um fundarstjórn forseta, hæstv. forseta og þingheimi þær lyktir sem urðu á því máli sem hér var rætt undir sama dagskrárlið í morgun, þ.e. þeirri beiðni minni að hér færi fram umræða utan dagskrár um málefni Ríkisútvarpsins og þá alvarlegu stöðu sem þar er komin upp. Ég óskaði eftir því að hæstv. forsætisráðherra yrði til svara í þeirri umræðu vegna alvarleika málsins sem ég tel vera orðinn þess eðlis að í ljósi fjarveru hæstv. menntamálaráðherra sé enginn annar réttari til að taka þá umræðu en hæstv. forsætisráðherra.

Hæstv. forseti Alþingis, Halldór Blöndal, hafnaði þeirri beiðni minni, að forsætisráðherra yrði kallaður til umræðunnar og reyndar hafði hæstv. forsætisráðherra sjálfur hafnað þeirri ósk minni þegar ég kom að máli við hann í þinghléi rétt fyrir hádegi. Hann sagðist ekki fara inn á svið fagráðherranna og forseti þingsins Halldór Blöndal sagði mér að hér væri vinnureglan ekki sú að kalla til forsætisráðherra þegar um fagmál væri að ræða.

Hæstv. forseti. Eftir stendur beiðni mín um umræðu utan dagskrár sem ég hef óskað eftir að fari fram um leið og hæstv. menntamálaráðherra er komin til starfa aftur. Ég á von á því að hún komi til landsins um helgina og treysti því, virðulegi forseti, að þessi umræða geti farið fram á mánudaginn. Það finnst mér rétt og skylt í ljósi þess sem hér hefur verið að gerast í morgun.

Þá vil ég einnig orða hér við hæstv. forseta ákall til Alþingis Íslendinga sem hæstv. forseti var að tilkynna rétt í þessu að lægi frammi á lestrarsal. Ákall þetta er frá fréttamönnum Ríkisútvarpsins og því hefur verið dreift í hólf allra þingmanna. Hér er um mjög svo alvarlegt ákall að ræða sem ég tel eðlilegt að tekið verði til umfjöllunar á Alþingi hvernig sem við gerum það því að hér erum við, lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, beðin að bregðast við því sem fréttamenn kalla neyðarástand sem skapast hefur í Ríkisútvarpinu.

Ég tek undir að ástandinu á fréttastofu Ríkisútvarpsins sé best lýst sem neyðarástandi. Ég tek undir þetta ákall þar sem fréttamenn heita á alþingismenn að standa vörð um Ríkisútvarpið sem þjónað hefur þjóðinni í nær 75 ár. Ég tel hér verulega alvarlega hluti á ferðum og sérstaklega kannski í ljósi þess sem við fengum að heyra í fréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu þar sem nýr fréttastjóri leynir þjóð og fréttamenn því að hann hafi átt fund með formanni útvarpsráðs í gær. Hann segir þjóðinni beinlínis ósatt og er gerður afturreka með það. Mér finnst það afar alvarlegt og tel að í ljósi þessa alls sé ákallið þess eðlis að alþingismenn verði að ræða það og það verði að taka það fyrir hér. Það er ljóst að ríkisstjórnin er að beita áhrifum inni á fréttastofunni, það er verið að breyta Ríkisútvarpinu í ríkisstjórnarútvarp með gerræðislegum aðferðum. Lýðræðishefðir þessarar stóru stofnunar eru brotnar á bak aftur. Það má ekki gerast.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. þingmenn að halda sig við það að ræða um fundarstjórn forseta en ekki efnisatriði máls.)