131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[13:37]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Alþingi fer að loknum þessum degi í helgarfrí. Ráðherrar eru í einhvers konar fríi líka flestir.

Ein stofnun í landinu fer ekki í frí, eitt fyrirtæki í landinu fer aldrei í frí. Það er fyrirtækið Ríkisútvarpið, fyrirtæki almennings. Þar er nú ljóst eftir tíðindi dagsins og eftir þann texta sem við höfum fengið hér afhentan, Ákall til Alþingis Íslendinga, að skapast hefur sú staða sem ekki þolir bið. Það er þess vegna ekki vítalaust að forseti Alþingis skuli hafa hafnað beiðni um frekari umræðu hér, skipulega umræðu, og það er ekki sæmandi að forsætisráðherra hæstv. skuli hafa skorast undan því að vera hér og taka við spurningum og svara fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli.

Ekki verður unað við annað en að héðan komi viðbrögð, að Alþingi svari þessu ákalli starfsmanna Ríkisútvarpsins, fréttamanna á Ríkisútvarpinu, með einhverjum hætti. Þess vegna sakna ég hér forseta Alþingis, þess sem kjörinn var og þess sem tók við ályktun fréttamanna áðan. Ég spyr í þessum sal: Hver eru viðbrögð hans? Þess vegna sakna ég þess líka að forsætisráðherra hæstv. sem í allan morgun er búinn að vera á vappi utan þingsalar skuli ekki vera hér í salnum og segja okkur hver eru viðbrögð hans sem forustumanns ríkisstjórnar Íslands. Það er þetta sem við þurfum að fá hér fram í dag. Við þurfum að fá viðbrögð ríkisstjórnarinnar, líkamnaðrar í forsætisráðherranum hæstv. Og við verðum að fá að vita hvað forseti Alþingis, sá sem kjörinn var, sá sem við ákallinu tók, hefur hugsað sér að gera með það.