131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[13:46]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er mjög slæmt að þessi umræða skuli ekki geta farið hér fram. Það er ákaflega alvarlegt mál að hæstv. ríkisstjórn komist upp með að koma sér hjá því, koma sér undan því að svara fyrir gerðir sínar í Ríkisútvarpinu og axla ábyrgð sína gagnvart Alþingi á því máli, og hæstv. forsetar þingsins verða auðvitað að taka það mál sérstaklega til skoðunar. Forsetum þingsins ber að standa vörð um rétt þingmanna, m.a. til þess að taka upp mál og krefja ráðherra svara.

Það eru auðvitað ekkert annað en hrein undanbrögð hjá hæstv. forsætisráðherra að neita að taka þessa umræðu. Málið er stjórnarflokkanna beggja. Upphaf þess er að rekja til fulltrúa stjórnarflokkanna í útvarpsráði og kannski sérstaklega til spunadoktoranna á bak við hæstv. forsætisráðherra sjálfan. Það eru hrein undanbrögð hjá hæstv. forsætisráðherra, sem er hér á staðnum, að taka ekki þessa umræðu. Eða ætlar hæstv. forsætisráðherra í felur líka? Ætlar hann kannski að skríða til útlanda og fela sig þar eins og hæstv. menntamálaráðherra?

Hæstv. forsætisráðherra getur tekið hvaða mál sem hann vill á vettvangi ríkisstjórnarinnar og svarað fyrir þau. Hæstv. forsætisráðherra þarf ekki nema eitt símtal við hæstv. menntamálaráðherra og hafa samráð við fagráðherrann um að hann taki að sér fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að svara fyrir málið. Þetta gefur augaleið. Það stendur ekki á hæstv. forsætisráðherra við ýmsar aðrar og vinsælli aðstæður að þenja sig og breiða sig og vængi sína út yfir ríkisstjórnina alla. Hæstv. forseti þingsins á ekki að líða hæstv. forsætisráðherra þessi undanbrögð. Við svona aðstæður ætlumst við þingmenn til þess að forsetarnir séu forsetar þingsins og standi vörð um rétt þingmanna til að sinna hlutverki sínu, þar á meðal að veita ríkisstjórninni aðhald, að láta hana svara fyrir gerðir sínar hér á þingi. Það er hingað sem ríkisstjórnin sækir umboð sitt og það er hér sem hún á að svara fyrir gjörðir sínar.

Þegar í hlut á mikilvæg opinber stofnun eins og Ríkisútvarpið sem starfar eftir lögum frá Alþingi og fær fjárveitingar eða eru skammtaðar tekjur héðan er það líka skylda Alþingis að taka á þeim málum og tryggja að Ríkisútvarpið geti starfað samkvæmt lögum, hafi starfsfrið og starfsmöguleika. Það ástand er ekki við lýði í dag. Fréttastofan er óstarfhæf, Ríkisútvarpið er óstarfhæft. Útvarpsstjóri er rúinn trausti, fréttastjórinn hvorki kann á né getur ráðið við það starf sem hann hefur verið ráðinn til, þannig að hann er að fá leiðsögn til að hann rati innan húss.

Það er auðvitað ævintýralegt, virðulegur forseti, að við skulum standa frammi fyrir því á Íslandi á árinu 2005 að það sé ekki frjáls fjölmiðlun í landinu heldur stöndum við frammi fyrir hinu gagnstæða. (Forseti hringir.) Það er gerð tilraun til flokkspólitísks valdaráns í Ríkisútvarpinu. (Forseti hringir.) Og hverjum ber nú að reyna að afstýra slíku ef ekki Alþingi?