131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[13:50]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að við teljum nauðsynlegt að Alþingi bregðist við því ákalli sem fram hefur komið og þeirrar grafalvarlegu stöðu sem uppi er í Ríkisútvarpinu, viðbrögð við aðför stjórnarflokkanna að sjálfstæði Ríkisútvarpsins, óskuðum við þrír þingmenn Samfylkingarinnar í menntamálanefnd á fundi hennar núna í hádeginu klukkan 13.15 eftir því, virðulegi forseti, að nefndin yrði kölluð saman vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er í Ríkisútvarpinu af því að starfsmenn hafa ályktað sem svo gegn útvarpsstjóra sínum að hann er þar rúinn trausti, rúinn virðingu. Við höfum óskað eftir því að nefndin verði kölluð saman og útvarpsráð verði kallað fyrir nefndina og útvarpsstjóri. Þeir geri menntamálanefnd Alþingis grein fyrir því hvernig staðan er þar innan húss nú þegar aðför stjórnarflokkanna að sjálfstæði Ríkisútvarpsins er í hámæli. Við höfum kallað eftir þessu. Samkvæmt 15. gr. þingskapa ber formanni menntamálanefndar að kalla nefndina saman hið fyrsta til að ræða málið sem óskað er eftir að tekið verði fyrir.

Það var að heyra á formanni nefndarinnar, hv. þm. Gunnari. Birgissyni, að við þessu yrði að sjálfsögðu orðið hið allra fyrsta og því óska ég eftir því, virðulegi forseti, að hlé verði gert á fundum Alþingis á meðan menntamálanefnd kemur saman og ræði þetta grafalvarlega mál, ræði aðförina að Ríkisútvarpinu, ræði hvernig eigi að bregðast við og hvernig eigi að leysa hnútinn. Hvort útvarpsstjóra beri ekki að fara frá tafarlaust til að ró komist á og hægt sé að vinna úr þeirri grafalvarlegu stöðu sem uppi er. En fyrst og fremst þarf að kalla nefndina saman til að hún geti kallað á sinn fund þá sem að málinu koma, útvarpsráð, formann útvarpsráðs og útvarpsstjóra, mennina á bak við aðförina að Ríkisútvarpinu.

Við förum fram á að fundum Alþingis verði frestað á meðan nefndin kemur saman og kalli þessa aðila fyrir sig. Ekki er hægt að líða það að Ríkisútvarpið búi við þessa óvissu, þetta hernaðarástand núna um helgina og næstu daga. Það getur ekki beðið mánudagsins að málið verði rætt og Alþingi bregðist með formlegum hætti við því ákalli sem fram er komið frá fréttamönnum á Ríkisútvarpinu og við þeirri grafalvarlegu stöðu sem uppi er í þeirri hornstofnun samfélags okkar.

Því fer ég fram á það, virðulegi forseti, að forsætisnefnd komi saman og fundi um það hvort ekki sé hægt að fresta fundum Alþingis, menntamálanefnd komi saman, kalli þessa aðila fyrir sig, ræði málið og skýri síðan þingheimi frá því hvað út úr því hefur komið.