131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[13:54]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Á fundi forseta með þingflokksformönnum var farið yfir þær beiðnir sem liggja fyrir um utandagskrárumræður, þar á meðal þá beiðni sem hér hefur legið fyrir og hefur verið beint til forseta núna á þessum degi að yrði tekin fyrir í dag. Ég tel að augljóst sé að þegar menntamálaráðherra kemur hér til starfa verði þetta mál rætt við hæstv. menntamálaráðherra.

Það var úrskurður forseta að málefni Ríkisútvarpsins — og þarf raunar ekki úrskurð forseta til þess — að það væru þeir ráðherrar sem væru með málaflokkana á sínu valdi sem svöruðu óskum um þær umræður sem bærust um utandagskrárumræður í þinginu, en ekki, eins og hér hefur komið fram, hæstv. forsætisráðherra. Ríkisútvarpið er ekki á málasviði hans. Þessu hefur því öllu verið vel til skila haldið og óþarfi að halda hér uppi undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, umræðu um hvort á að ræða þetta við einhvern annan ráðherra en menntamálaráðherra.

Ég vil einnig benda á, af því að það kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni að forseti hefði hafnað því að þetta mál yrði rætt utan dagskrár, að það er alrangt. Forseti hafnaði því ekki, þvert á móti hefur hann tekið vel í það og mun leita eftir því við menntamálaráðherra að umræða geti farið fram eftir helgina þegar menntamálaráðherra hefur komið til starfa.