131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[13:56]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil taka til máls um fundarstjórn forseta, ég undirstrika það sérstaklega.

Þessi umræða hefur ekki snúist um fundarstjórn forseta. Forseti hefur af veikum mætti reynt að hemja menn í því að ræða um málefni sem hver einasti ræðumaður hefur talað um. Þetta er ákveðið agaleysi. Ég vil styðja forsetann í því að menn haldi sig við fundarstjórn forseta. (Gripið fram í.)

Þess vegna er það dálítið undarlegt að menn skuli krefjast þess, og meira að segja hæstv. forseti tekur undir það, að hæstv. forsætisráðherra komi inn í umræðuna um fundarstjórn forseta. Ég skil ekki rökin á bak við það. Sá eini sem ætti að vera viðstaddur umræðu um fundarstjórn forseta er hæstv. forseti sjálfur. (Gripið fram í: Hvar er hann?) Hann er viðstaddur. (Gripið fram í: Hvar er hann? Ég sé hann hvergi.) Hæstv. forseti Alþingis situr í stólnum (Gripið fram í: Varamaður hans.) og er að stýra fundi. (Gripið fram í.)

Ég verð því miður, frú forseti, að taka upp þráðinn sem aðrir hafa rætt hérna um málefnið, því miður, (Gripið fram í.) þó að verið sé að ræða um fundarstjórn forseta, vegna þess að það er svo einhliða málflutningur sem hefur komið fram. Málið er það að við höfum …

(Forseti (JóhS): Forseti vill ítreka það að hv. þingmaður sem í ræðustól stendur sem og aðrir haldi sig við það að ræða um fundarstjórn forseta.)

Þá ætla ég ekki að ræða um málefnið þó að allir aðrir hafi gert það.