131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[14:10]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Til að árétta í hvaða farvegi málið er varðandi ósk okkar, þriðjungs nefndarmanna, fulltrúa Samfylkingarinnar í menntamálanefnd, um að nefndin yrði kölluð saman, þá fundaði nefndin núna klukkan 13.15 þar sem málum hafði verið vísað til nefndar.

Undir liðnum Önnur mál fór þriðjungur nefndarinnar, samkvæmt 15. gr. þingskapa, fram á það sem stendur, með leyfi forseta:

„Formanni nefndar er skylt að boða til fundar ef ósk berst um það frá a.m.k. þriðjungi nefndarmanna.“

Við fórum formlega fram á það, virðulegi forseti, við formann menntamálanefndar að nefndin yrði kölluð saman hið allra fyrsta og kallaði á fund sinn útvarpsráð og útvarpsstjóra, rúinn trausti eftir að hafa staðið með stjórnarflokkunum í yfirtöku þeirra á fréttastofu útvarpsins. Við höfum þegar komið óskinni formlega á framfæri og ég fer því fram á það við virðulegan forseta að hann fresti þingfundi, hafi upp á formanni menntamálanefndar og komi því til leiðar að nefndin verði kölluð saman hið allra fyrsta. Við höfum, eins og áður segir, þriðjungur menntamálanefndar, fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni, óskað formlega eftir því og samkvæmt þingsköpum er formanni nefndar þar með skylt að kalla nefndina saman af því tilefni sem óskað er.

Í þeim farvegi er málið. Við höfum lagt þessa ósk formlega fram við formann nefndarinnar á fundi nefndarinnar og samkvæmt þingsköpum, er honum skylt, virðulegi forseti, að boða nefndina til fundar. Við teljum ekkert því til fyrirstöðu að það gerist í dag, núna á eftir. Því er ekki eftir neinu að bíða með að nefndin komi saman og kalli til fulltrúa sem ég nefndi, úr útvarpsráði og að sjálfsögðu útvarpsstjóra sjálfan, rúinn trausti, á fund nefndarinnar. Menn gætu þar gert grein fyrir stöðu stofnunarinnar nú þegar tilraun ríkisstjórnarflokkanna til yfirtöku á fréttastofu útvarpsins er í algleymingi og dramatísku hámarki.

Ég fer þess vegna fram á að fundum þings verði frestað meðan úr þessu verður skorið, hvort formaður menntamálanefndar geti orðið við því í dag. Við höfum óskað eftir því formlega, eins og þingsköp kveða á um, að nefndin komi saman og þau segja formanni nefndar skylt að verða við bóninni.