131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Áfengislög.

676. mál
[14:14]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á áfengislögum. Með frumvarpinu er lagt til að þeim sem hafa leyfi til innflutnings eða heildsölu áfengis í atvinnuskyni verði heimilað að selja eða afhenda öðrum fyrirtækjum áfengi til iðnaðarnota. Jafnframt er lagt til að settur verði skýrari grundvöllur undir heimild ráðherra til setningar reglugerðar um fyrirkomulag veitingar leyfa til innflutnings, heildsölu eða framleiðslu áfengis í atvinnuskyni.

Samkvæmt áfengislögum er innflytjendum og heildsölum ekki heimilt að selja eða afhenda fyrirtækjum áfengi til notkunar við iðnaðarframleiðslu. Þannig getur innflytjandi áfengis t.d. ekki selt lyfjafyrirtæki áfengi sem það hyggst nota við framleiðslu lyfja eða snyrtivara. Hins vegar gera lögin ráð fyrir að sami innflytjandi geti selt áfengi til fyrirtækja sem hafa leyfi til að framleiða áfenga drykki, svo og til þeirra sem hafa leyfi til að selja eða veita áfengi í atvinnuskyni. Hefur þetta fyrirkomulag sætt talsverðri gagnrýni og þá einkum sá greinarmunur sem gerður er á fyrirtækjum sem nýta vínanda til iðnaðarframleiðslu og fyrirtækjum sem nýta vínanda til framleiðslu annarra áfengra drykkja.

Ekki verður séð að nein rök mæli með þessum greinarmun. Þykir því eðlilegt að áfengislögum verði breytt þannig að þeir aðilar sem fengið hafa leyfi til innflutnings eða heildsölu áfengis geti selt áfengi til fyrirtækja sem nota það við iðnaðarframleiðslu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.