131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[14:34]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það fer ekkert á milli mála að það þarf að leita allra leiða til að bæta afkomu í íslenskri ferðaþjónustu. Þess vegna m.a. er nú tillagan flutt. Stóra og mikilvæga málið í því samhengi er að lengja ferðamannatímann til þess að nýta fjárfestingu í ferðaþjónustunni betur, í hótelum og veitingastöðum og öllum þjónustuþáttum þessarar greinar. Stóra málið er því að fá ferðamenn til þess að koma til landsins allan ársins hring.

Ég endurtek að ég tel ekki rétt að áfengisgjaldið ráði úrslitum í afkomu íslenskrar ferðaþjónustu. Það er ekki þannig. Hér er lögð áhersla á að við reynum að skapa íslenskri ferðaþjónustu sambærileg rekstrarskilyrði. Það kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að að því beri að stefna sem mest. Sem dæmi um skattlagningu aðfanga minni ég á að opinber gjöld vegna innflutnings á rútum til landsins sem notaðar eru til þess að flytja ferðamenn um landið hafa verið lækkuð stórlega. Það hefur leitt til þess að endurnýjun þess flota hefur verið heilmikil sem betur fer. Það er dæmi um aðgerð sem ég tel að hafi verið afskaplega vel heppnuð og er partur af því sem hér er verið að tala um, þ.e. að skapa þessi rekstrarskilyrði og sem m.a. snýr að skattlagningu og opinberum gjöldum af greininni.

Að öðru leyti undirstrika ég það að þetta er mikilvæg umræða sem þarf að fara fram gagnvart (Forseti hringir.) atvinnugrein sem hefur vaxið mjög mikið og við eigum mikla möguleika á að auka enn frekar.