131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[14:39]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fjalla um stjórnartillögu þannig að ríkisstjórnin stendur öll að baki henni einhuga mjög og það er ríkur vilji stjórnarflokkanna til þess að standa vel að þessum málum og tryggja framgöngu og afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu.

Ég vil ekkert um það segja hvort koma þurfi böndum á einstaka ráðherra. En ég tel að allt fram að þessu hafi verið býsna góð sambúð milli ferðaþjónustuaðila og þeirra sem virkja fallvötn og nýta orkulindir landsins. Ég held því t.d. að uppbygging á hálendinu, vegir og troðningar í tengslum við virkjanaframkvæmdir o.s.frv., hafi nýst ferðaþjónustunni afskaplega vel. En þetta þarf auðvitað að fara saman. Þess vegna er svo rík áhersla í þessari stjórnartillögu lögð á náttúruna. Við kynnum Ísland sem land þar sem náttúran er í fyrirrúmi og varðveisla hennar og við viljum nýta okkur það með því að kalla til okkar góða gesti sem vilja njóta íslenskrar náttúrufegurðar. Það er, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, meginþráður þessarar tillögu. Ég fagna þeim ágætu undirtektum sem komu fram í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar við þessa tillögu.